Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Loftslagsmál aðalmálaflokkur komandi kosninga

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Umhverfisfræðingur segir fátt í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna koma á óvart. Loftslagsmálin séu á ystu nöf og verði aðalmálaflokkur í komandi kosningum.

Ný skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsvána bendir til að þrátt fyrir aðgerðir ríkja heims séu markmið Parísarsamkomulagsins, um að halda hnattrænni hlýnun undir tveimur gráðum, enn ekki innan seilingar.

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá Environice, segir skýrsluna ekki koma á óvart. 

„Ég held að ég geti sagt að það sé ekkert í þessari skýrslu sem kemur mér á óvart, skýrslan segir fyrst og fremst að ástandið er vissulega slæmt, það fer hratt versnandi og líkurnar á að svartsýnustu spár rætist eru meiri en þær voru.“ 

Telur stefnumótun ekki farna að skila árangri

Umhverfisráðherra hefur sagt nauðsynlegt að bregðast við skýrslunni og gera betur. Samkvæmt Umhverfisstofnun dróst losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum saman um fimm prósent milli áranna 2019 og 2020. Stefán telur þó ekki að það sé stefnumótun stjórnvalda sérstaklega að þakka. 

„Það eru alls konar þættir sem eru meiri tilviljun en afleiðingar markvissrar stefnumótunar. Ég held að við séum ekki farin að sjá afleiðingar markvissrar stefnumótunar enn þá á Íslandi.“ 

Komin í algjöra eindaga

„Ég held að hvorki almenningur né stjórnmálamenn hafi gert sér grein fyrir því hversu brýnt viðfangsefnið er því við erum að tala um algjöra breytingu á neysluháttum og lífinu sem þarf að eiga sér stað á næstu sjö árum. Við erum ekki að tala um tíu, fimmtán eða tuttugu ár. Við erum að tala um eitthvað sem við erum að komin í algjöra eindaga með.“ 

Loftslagsmálin séu nú brýnasti málaflokkurinn og komandi kosningar eigi að endurspegla það.  

„Það er ekki hægt að kjósa til Alþingis árið 2021, bæði út af þessari nýútkomnu skýrslu og bara út frá því sem við vitum almennt, þá er ekki hægt að kjósa til Alþingis árið 2021 án þess að tala um loftslagsmálin. Það væri bara mjög einkennilegt.“