Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Á Skrattavaktinni

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjar Snær - Skrattar

Á Skrattavaktinni

23.08.2021 - 11:26

Höfundar

Platan Hellraiser IV er fjórða útgáfa Skratta. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt var plata vikunnar í síðustu viku á Rás 2

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

„Sígaretturokk með elektrónísku ívafi,“ segja Skrattar sjálfir um þessa plötu og svei mér þá, ég held að þeir eigi barasta kollgátuna. Hljómsveitin hefur verið starfandi um hríð, innanborðs eru meðal annars Guðlaugur Hörðdal (russian.girls og Fufanu) og Karl Ställborn (Muck).  Aðrir Skrattar eru þeir Sölvi Magnússon, Jón Arnar Kristjánsson og Kári Guðmundsson.

Töffarabragur sígilds rokks liggur yfir allri framvindu hér og andi sveita eins og Velvet Underground, Primal Scream og Birthday Party svífur yfir gruggugum vötnum. Það er glundroði, hætta, óvissa. Lög eru hrá, óútreiknanleg og „ekki í lagi“ á köflum. Og allt styður þetta við heildarmyndina og þá ímynd sem Skrattar hafa borið frá upphafi. Sólgleraugu, bannað að brosa, leðurjakkar, bert hold og svívirða. Gott og vel. Þessi útgangspunktur þjónar plötunni en um leið stendur hann henni fyrir þrifum. Þessi fallegi tapara-andi (sjá t.d. Johnny Thunders) virkar stundum vel og heillar, áhrifaríkir ræsistextar saman með lögum sem virðast við það að detta í sundur. Flott. Svalt. En á köflum snýst þetta upp í andhverfu sína og sum lögin hljóma eingöngu eins og ókláraðar skissur og þá án þess sjarma sem ég var að lýsa hérna rétt á undan.

Þessi hryssingsáferð virkar t.a.m. vel í opnunarlaginu, „Kronikropi“. Ýlfrandi, skældur gítar. Sungið og/eða muldrað yfir og lagið hlykkjast einhvern veginn áfram, óreglulega. Þarna eru menn algerlega að ná landi með það sem lagt er upp með. „Born a Sucker“ er líka gott, sólbakað spagettírokk með hæfandi gítarleik og alltumlykjandi firringu. Þegar Skrattar eru góðir, þá geta þeir verið stórgóðir. Það er líka styrkur að platan er þess til að gera fjölbreytt og oft bryddað upp á vel til fundnu flippi í einstökum lögum.  En svo er líka verið að skjóta fram hjá. „Já já já já já“ lyktar af æfingahúsnæðisbrandara, afgangsáferð á því og það bara nær ekki flugi. „Ógisslegt“ er sama marki brennt, það er eitthvað menntaskólalegt við það og ég er bara ekki að kaupa það. Töffaraímyndin fellur og eftir standa hálfgerðir gúmmígæjar.

Skapalónið í kringum þetta verkefni er á margan hátt spennandi og býður upp á súrrandi sniðugheit og kafloðið rokk. Sjálf framkvæmdin hjá Skröttum er hins vegar upp og ofan, verður að viðurkennast, þar sem stundum tekst að „fíra“ rækilega upp í rokkinu en á köflum er bara um daufa glóð að ræða.

Tengdar fréttir

Tónlist

Það er öllum, Skröttum og ömmu þeirra drullusama

Mynd með færslu
Tónlist

Skrattar – Já Já Já Já Já