Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tillögur sóttvarnalæknis gætu fælt flugfélögin frá

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Ferðamálaráðherra segir að ekki komi til greina að takmarka komur ferðamanna til landsins, líkt og lagt er til í minnisblaði sóttvarnalæknis. Framkvæmdastjóri hjá Isavia segir að slíkt kunni að hafa skaðleg áhrif til lengri tíma.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna segir að sé ekki hægt að anna skimunum vegna fjölda ferðamanna, þurfi að leita leiða til að takmarka fjölda ferðamanna. Þá er lagt til að allir verði krafðir um neikvætt PCR eða hraðpróf, bæði áður en gengið er um borð og við komu hingað til lands.

Kemur ekki til greina að takmarka fjölda ferðamanna

Ítrekað hefur verið kvartað undan öngþveiti á Keflavíkurflugvelli og það sagt til komið vegna krafna um að vottorð allra farþega séu skoðuð við lendingu. Ferðamálaráðherra og ISAVIA vilja hins vegar að vottorð allra verði skoðuð ytra en að teknar verði upp handahófskenndar skimanir í Keflavík. „Eins og við gerum auðvitað á mörgum öðrum sviðum samfélagsins þar sem við erum með ákveðnar reglur, við skoðum ekki hvern og einn heldur tökum við þá út með tilviljanakenndum eða áhættumiðuðum hætti, hvort verið sé að fylgja reglum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.

Hún segist ekki skynja annað en að ríkisstjórnin sé einhuga um að það sé ekki valkostur að takmarka fjölda ferðamanna. „Og það kemur ekki til greina að takmarka komur fólks, ferðamanna eða Íslendinga, á flugvöllinn af því að við ráðum ekki við það praktíska kerfi sem við höfum sett upp. Það er þá einfaldlega okkar að finna út úr því hvernig við gerum það. Eða einfaldlega breyta reglunum.“

ISAVIA hugnast ekki tillögur um fækkun

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá ISAVIA segir að þar á bæ hugnist fólki ekki tillögur sóttvarnalæknis. Bæði yrði framkvæmdin afar flókin og slík ákvörðun kæmi á afar slæmum tímapunkti. „Flugfélögin eru núna að taka ákvarðanir um hvað þau ætli að gera fyrir veturinn og hvað mikið þau ætla að fljúga til og frá Íslandi. Og þau eru líka núna á næstu sex vikum að fara að taka ákvarðanir fyrir árið 2022. Og öll óvissa sem er í loftinu, hún mun hafa neikvæð áhrif á það þegar við förum út og erum að selja Keflavíkurflugvöll sem áfangastað.“

Gætu horft á eftir flugfélögum

Guðmundur Daði segir að Ísland sé ekki aðeins í samkeppni við önnur lönd sem áfangastaðu, heldur eigi Keflavíkurflugvöllur í harðri samkeppni við aðra flugvelli um tengiflug yfir Atlantshafið. Ákvörðun um að takmarka fjölda ferðamanna hefði neikvæð áhrif, bæði til skemmri og lengri tíma. Jafnvel gætu flugfélög sem nú þegar fljúga hingað ákveðið að gefa flugvöllinn upp á bátinn. „Þá er líklegt að einhverjir muni ákveða hreinlega að nýta sínar flugvélar í að fljúga á aðra áfangastaði þar sem eru ekki takmarkanir eða áhætta að það verði takmarkanir á komandi mánuðum um að fljúga á þann áfangastað.“