Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Stjórnendur og ráðamenn hlusti ekki á starfsfólk LSH

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Formaður Félags sjúkrahúslækna gagnrýnir harðlega að slæm staða Landspítalans sé sögð stafa af mönnunarvanda en ekki fjárskorti. Fækka hafi þurft rýmum á gjörgæsludeild í vor vegna sparnaðarkröfu. Þá hafi ekki allir hjúkrunarfræðingar sem sóttu þar um starf verið ráðnir. Hann segir að ekki sé hlustað á sjónarmið starfsfólks sem þó viti best hvernig staðan sé.

Formaður Félags sjúkrahúslækna furðar sig á niðurstöðu fundar forystumanna ríkisstjórnarinnar með forstjóra Landspítalans og segir í færslu á Facebook að niðurstaðan virðist vera sú að mönnun sé eina vandamál gjörgæslu Landspítalans en ekki skortur á fjármagni. 

„Það er kannski dálítið sárt að heyra það. Ég hefði haldið að mönnun og fjárhagur væri bara sín hvor hliðin á sama peningnum. Ég hélt að öllum fyndist það augljóst. Það er alltaf sparnaðarkrafa á okkur og þar sem spítalinn er á föstum fjárlögum er eina leiðin til að spara peninga að skera niður starfsemi eða framleiðni eins og margir vilja meina,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna.

Theódór starfar á gjörgæsludeild. 

„Við erum búin að tala um þetta alla vega í fjögur ár, síðan ég kom heim úr sérnámi, að það þyrfti aðgerðir, við þyrftum að fjölga gjörgæsluplássum,“ segir Theódór.

Síðasta vetur hafi mun fleiri hjúkrunarfræðingar sótt um vinnu á gjörgæsludeildunum en heimild var til að ráða. 

„Og því er staðan sú sem hún er í dag,“ segir Theódór.

Í vor var plássum á gjörgæsludeild fækkað úr þrettán í tíu. Við það hafi Ísland lent í botnsæti Evrópuþjóða hvað varðar fjölda gjörgæsluplássa.

„Nú er staðan eins og hún er. Það er verið að kalla fólk inn úr fríum. Hjúkrunarfræðingar vinna tvöfaldar vaktir. Það er verið að kalla inn fólk alls staðar að, utan af landi, fá fólk úr einkageiranum og jafnvel utan úr heimi,“ segir Theódór.

Á sólarhring þurfi um sextíu starfsmenn á gjörgæsludeildir. 

„Framlag Klíníkurinnar í síðustu viku voru tveir starfsmenn á gjörgæslu sem er brotabrot af því sem þarf,“ segir Theódór.

Hann segir að ekki sé hlustað á sjónarmið starfsfólks spítalans.

„Okkur finnst eins og okkar skilaboð upp til stjórnenda spítalans nái ekki alla leið. Og ennþá síður samtal stjórnenda spítalans við stjórnvöld og ráðherra, það virðist ekki skila þeim árangri sem það ætti að gera,“ segir Theódór.