Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kona má loks heita Kona

Elín Eddudóttir
 Mynd: Bragi Valgeirsson
Mannanafnanefnd hefur úrskurðað að kvenkynseiginnafnið Kona skuli samþykkt og í kjölfarið fært á mannanafnaskrá. Áður hafði nafninu verið hafnað.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Málavextir eru þeir að Elín Eddudóttir hafði sótt um að fá að taka upp millinafnið Kona. Með úrskurði mannanafnanefndar frá 22. maí 2019 var umsókn hennar hafnað með þeim rökum að nafnið bryti í bág við íslenskt málkerfi.

Í maí síðastliðnum komst umboðsmaður Alþingis hins vegar að þeirri niðurstöðu að þar hafi mannanafnanefnd ekki farið að lögum. Taldi hann að nefndin hafi farið út fyrir það svigrúm til mats sem hún hafi samkvæmt lögum og ekki sýnt fram á að hún hafi lagt viðhlítandi grundvöll að ákvörðun sinni í málinu.

Þá taldi umboðsmaður að nefndin hefði ekki tekið nægt tillit til hagsmuna borgarans af því að fá að ráða nafni sínu og auðkenni sjálfur. Beindi hann því til nefndarinnar að hún tæki málið upp að nýju og tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem reifuð voru í áliti hans.

Erindi um endurupptöku barst mannanafnanefnd þann 1. júní og þann 11. ágúst síðastliðinn tók nefndin beiðnina fyrir. Einn meðlimur mannanafnanefndar skilaði sératkvæði og taldi nafnið geta orðið nafnbera til ama þar sem það gæti sem nafn á barni hæglega talist undarlegt og annarlegt.

Meirihluti mannanafnanefndar var á öðru máli og sem fyrr segir úrskurðaði nefndin sem svo að nafnið Kona skyldi samþykkt.