Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þarf átak til að manna viðkvæmustu deildirnar

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Fjármálaráðherra tekur undir að mikið brottfall úr heilbrigðisstéttum megi að hluta rekja til launakjara. Það skýri hins vegar ekki mönnunarskort á gjörgæsludeildum.

Þriðjungur menntaðra hjúkrunarfræðinga starfar utan heilbrigðiskerfisins, nær helmingur lækna og ljósmæðra og sextíu prósent sjúkraliða, samkvæmt samantekt BHM sem birt var í gær. Var yfirlýsingin birt í kjölfar umræðu um að auka þurfi nýliðun í heilbrigðisstéttum til að ráða bót á langvarandi undirmönnunun í lykilstofnunum heilbrigðiskerfisins. Sagði formaður BHM að mikið brotthvarf úr heilbrigðisstéttum skýrist einna fyrst og fremst að lökum kjörum, einkum kvennnastétta, samanborið við aðrar háskólamenntaðar stéttir.

Fjármálaráðherra tekur undir þetta, að hluta. Þegar talað séu um að mennta þurfi fleiri sé einkum átt við sérhæfð störf tengd gjörgæslu. „Þar erum við klárlega með of fáa sem eru að útskrifast og það þarf að gera átak í því að fá fleiri á þessar viðkvæmu deildir. Við eigum alveg ofboðslega mikið undir því, enda er staðan á gjörgæslunni á Íslandi í dag ekki fjármögnunarvandi. Það hefur komið hér fram á fundum með heilbrigðisráðherra og forstjóra Landspítalans.“

Horfir á reynsluna af samningum við lækna

Bjarni segir skort á hjúkrunarfræðingum ekki bundinn við Ísland, það sé eitthvað sem öll Norðurlöndin búi við. Það sé hins vegar raunverulegt áhyggjuefni hversu margir menntaðir hjúkrunarfræðingar séu ekki að störfum og þar spili kjör vissulega þátt. „Ef við skoðum kjaraþróunina undanfarin ár þá hefur orðið mikil breyting á tiltölulega skömmum tíma. Við höfum séð talsverðar hækkanir og nú síðast voru gerðar talsverðar breytingar á vaktavinnufyrirkomulaginu. Læknar hafa sömuleiðis nýlega gengið frá samningum, ég er að horfa nokkur ár aftur í tímann, sem voru í mínum huga tímamótasamningar og breyttu miklu. Maður fann fyrir því í kjölfarið að það komu læknar heim til Íslands. Þannig að jú, kjaramál verða stór hluti af því hvernig okkur gengur að manna í heilbrigðisstöðurnar enda er alþjóðleg eftirspurn eftir þessum starfskröftum.“