Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Það er öllum, Skröttum og ömmu þeirra drullusama

Mynd: Brynjar Snær / Skrattar

Það er öllum, Skröttum og ömmu þeirra drullusama

21.08.2021 - 10:37

Höfundar

Davíð Roach Gunnarsson sekkur sér í djöfullegan tónheim hljómsveitarinnar Skratta, sem sent hefur frá sér nýja plötu sem nefnist Hellraiser IV. „Á nýju plötunni hafa Skrattar tekið allt það sem gerir þá einstaka, skerpt á og gert meira af því.“

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Það er gríðarlega hressandi á þessum síðustu og verstu sótthreinsuðu tímum, að fá í hendurnar alvöru rokkskífu; plötu sem sparkar í allt sem á vegi hennar verður og hrækir í andlit lýðheilsupredikandi áhrifavalda, plötu sem er drullusama um hver þú ert, hvað þú heitir, hvaðan þú kemur, og fyrir hvað þú stendur.

Hljómsveitin Skrattar gefur út sína aðra breiðskífu í dag undir merkjum bbbbbb-útgáfunnar sem teknóhetjan Bjarki rekur frá Berlín. En Hellraiser IV er þó af allt öðrum toga en raftónlistin sem hefur verið þeirra aðalsmerki hingað til, og raunar allt öðrum toga en flest það sem skolað hefur á Íslands strendur undanfarin ár. Skrattar eru gamaldags rokk og ról í þeirri merkingu að þeir fanga þá tilfinningu sem upphaflega fylgdi rokkinu, frekar en að tónlistin sé á nokkurn hátt gamaldags. Svo við byrjum bara á hljómsveitarnafninu þótti rokkið auðvitað satanískt í meira lagi þegar það fyrst kom fram. En það er líka eins og eitthvað hættulegt við tónlistina, villtur glundroði sem þú veist aldrei hvert tekur þig næst, rokkabillí, sígarettur, leðurjakkar og eiturlyf, og síðast en ekki síst, að vera drullu fokkíng sama.

Í hljóðheiminum stíga Skrattar hárfínan línudans milli hins filterslausa og sígaretturokks Singapore Sling og e-pillu-poppandi indídanstónlistar Happy Mondays, en uppfæra með nútímalegum slaufum, íslenskum húmor og leiftrandi tilraunagleði. Útkoman er groddaleg óvissurokkferð, drungaþrunginn sukksuddi, taktviss bassabjögun og dansaðu fíflið þitt, dansaðu fíflið þitt, dansaðu fíflið þitt, dansaðu. Síðasti pistill sem ég flutti á þessum vettvangi fjallaði um tengsl djamms og tónlistar, en það eru líklega fáar hljómsveitir sem eru jafn innblásnar af djammi og Skrattar - þeir vitna meira að segja í fyllirísslagara Nýrrar danskrar, Fram á nótt. En það er líka allur skalinn í djamminu hjá þeim, bæði útópísk gleðin á hápunktunum, og svartholska sjálfhatrið í þynnkunni.

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjar Snær - Skrattar

Skrattarnir eru fimm og komu fyrst saman 2016; Guðlaugur Hörðdal á forritun og ýmislegu, annar helmingur Fufanu og aðalsprautan í russian.girls. Karl ‎Torsten Ställborn‎, oft kenndur við harðkjarnasveitina Muck er á gítar og syngur. Kári Guðmundsson hjakkast á bassanum. Jón Arnar Kristjánsson, vel senaður þungarokksfantur, ber trommur og það sem er hendi næst. Sölvi Magnússon syngur, einnig þekktur sem Djöfullinn sjálfur - þarfnast ekki frekari útskýringa. Skrattar fengu fljótlega orð á sig fyrir líflega sviðsframkomu og óheflað attitúd, eins konar næsta kynslóð níhílískra Sling-töffara, en þeirra fyrsta plata, Skrattar og Djöfullinn sjálfur, kom út árið 2017.

Tónlistin á henni var innblásin af rokki og rafrænni danstónlist í jöfnum hlutföllum, uppfull af sukksindrandi sjálfseyðingarsöngvum með titla eins og Helför, Bara Gaman, Clinical Anethesia og Glundroði, sem þessar línur koma úr; „Þetta er tilraun til að fylla - Tóm innst inn í mér / Ef einhver er því mótfallinn - má hinn sami fokka sér.“ Clinical Anethesia er útúrfözzað vöku-anthem sem lýsir frati á gildi samfélagsins, hvers smáborgaralegar reglur ná svo sannarlega ekki yfir Djöfulinn sjálfan eins og hann lýsir svo fjálglega yfir í laginu.

Tuddaleg keyrsla

Á nýju plötunni Hellrasier IV hafa Skrattar tekið allt það sem gerir þá einstaka, skerpt á og gert meira af því. Strax í fyrsta laginu heyrir maður að sándið er vandaðra, það er vissulega hrátt og ófágað, en samt á útpældan hátt. Það byrjar á svægilegri rokkabillísveiflu í bland við kæruleysisleg flaut og öndunarhljóð, áður en hljóðhimnuklórandi rafmagnsgítar og hvítur hávaði sullast ofan í lagið. Eftir að það ríður yfir koma svo hlæjandi raddir og skrýtin synþahljóð sem halda keyrslunni gangandi, sem er jú það sem að Skrattar snúast fyrst og fremst um: keyrslu.

Þeir halda keyrslunni svo sannarlega gangandi á fyrri hluta plötunnar, hvort sem þeir syngja á ensku, íslensku, eða ekki, bassagangurinn er tuddalegur eins og hann sé spilaður með rifjárni, trommuheilarnir hljóma úr sér gengnir en halda samt takti, gítararnir krafsa sig af áfergju inn í sándið, og raddirnar hjá Kalla og Djöflinum sjálfum hljóma alltaf eins og þær séu á sveimi einhvers staðar utan við allt hitt, drullu sama hvort þeir séu að syngja sama lag eða ekki.

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjar Snær - Skrattar

Eitt sterkasta lagið á plötunni er Já já já já já, dólgslegt bassagrúv með skoppandi synþahljóðum, og í myndbandinu má sjá Skrattana úti á Granda og víðar að reykja sígarettur, míga á, hrækja og eyðileggja hluti. Þar sést glöggt að þó að Skrattar séu alls ekkert að grínast með tónlistina hafa þeir húmor fyrir sjálfum sér, ýkja meðvitað badboy-ímyndina og skeyta inn textum sem ekki heyrast í laginu á borð við „Djöfull elska ég sígó maaarr“.

Þrátt fyrir að töffaralegt sándið fleyti þeim langt eru samt bestu lögin á Hellraiser IV þegar Skrattarnir syngja á hinu ástkæra ylhýra. Því á góðum degi eru þeir rammsúrsuð reykvísk fyllibyttuskáld komin í beinan sukklegg af Degi Sigurðarsyni, eða jafnvel Megasi. Þar mætti nefna línur eins og „Dópari. Hann dó bara. Enginn plástur sem að læknar það / Setur ekki plástur á sálina,“ eða tökulagið Nýtt heimsmet í kvíðakast karla, sem er eftir Kuldabola: „Steðjinn í höfðinu á mér, hann er alvarlega þungur í dag / Öll eiturlyf í heiminum gætu ekki komið mér í lag.“ Þá finnst mér pönkaða munnhörpu-honkítonkíið Ógislegt hljóma eins og tilvísun í Augum úti með Purrki Pillnikk, sem GusGus sömpluðu sællar minningar.

En sterkasta lag plötunnar og það sem nær best utan um fyrirbærið Skrattar er næstsíðasta lagið Drullusama, þar sem rappynjan Alvia á stjörnuinnkomu. Skrattar eru í beef-i við alla, þeim er nákvæmlega sama um þig og þitt krú og vita ekkert hvert þeir eru að fara. Þeirra orð sökkva niðrí djúpið og eiga ekki afturkvæmt, heldur dúsa á botninum pikkföst við níðþungt akkeri níhíhílismans. „Það er öllum drullusama, það man enginn hvað þú heitir,“ öskra Skrattar út í ekkert-ið, og líta aldrei til baka. Hellraiser 4 með Skröttum er ein skítugasta og hættulegasta plata sem hefur komið frá Íslandi í háa herrans tíð og því ber að fagna, þó  þeim sé örugglega drullusama.