Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Öngþveiti og örvænting við flugvöllinn í Kabúl

21.08.2021 - 23:40
epa09423621 A handout photo made available by the Belgian Defense Ministry showing an Afghan family arrives in Islamabad Airport after their evacuation from Kabul by Belgian forces called Red Kite mission, in Islamabad, Pakistan, 20 August 2021 (Issued 21 August 2021).  EPA-EFE/Belgian Defense Ministry / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Afganskur maður gengur með börn sín frá borði belgískrar herflugvélar í Islamabad í Pakistan. Tugir þúsunda landa hans freista þess að komast inn á alþjóðaflugvöllinn í Kabúl og þaðan úr landi. Mynd: EPA-EFE - Belgian Defense Ministry
Mikið öngþveiti er við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl, þar sem þúsundir örvæntingarfullra Afgana freista þess að komast inn á flugvallarsvæðið og forða sér úr landi eftir að Talibanar tóku völdin í landinu. Á fréttamyndum bresku Sky-fréttastöðvarinnar sem teknar voru á laugardagsmorgun má sjá hermenn breiða hvítan dúk yfir minnst þrjú lík.

Óljóst er hvernig fólkið dó en algjört öngþveiti ríkir við flugvöllinn og af myndskeiðinu að dæma hafa margir orðið fyrir hnjaski. Stuart Ramsey, fréttamaður Sky á vettvangi, segir að fólk sem stendur fremst í ógnarlöngum röðunum sé aðþrengt og nánast kramið í hitanum, illa haldið af vökvaskorti og skelfingu lostið.

Hermenn gripu á endanum til þess ráðs að sprauta vatni á fólkið til að kæla það og sjá því fyrir svolitlu vatni að drekka, á meðan aðrir fóru út fyrir varnargirðingarnar til að hlynna að hlynna að þeim sem verst voru haldin og bera meðvitundarlaust fólk út úr þvögunni.

Ómögulegt að koma öllum úr landi

Samkvæmt frétt Sky hafa Bretar flutt rúmlega 3.800 manns frá Kabúl til þessa; bæði Breta og fólk sem unnið hefur með og fyrir Breta og Nató ásamt þeirra nánustu. Óttast er að ekki takist að flytja alla á brott áður en síðustu bandarísku hermennirnir yfirgefa landið, sem verður hinn 31. ágúst ef áætlanir ganga eftir.

Í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytisins segir að það sé algjört forgangsmál að koma öllum sem eiga tilkall til þess úr landi eins fljótt og örugglega og hægt er. Varnarmálaráðherrann Ben Wallace lýsir því hins vegar yfir í grein í breska blaðinu Mail on Sunday að „ekkert ríki [muni geta] komið öllum úr landi.“