Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Furðar sig á því að fólk sé útskrifað af heimili sínu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Dæmi eru um að fólk með heilabilun sé útskrifað af hjúkrunarheimilum og sent á Landspítalann vegna þess að of lítið er af faglærðu starfsfólki er á hjúkrunarheimilum. Þetta segir yfirlækni heilabilunareiningar Landspítalans. Ástand fólks með heilabilun versni af því að starfsfólk hjúkrunarheimila hafi ekki fagþekkingu. „Hjúkrunarheimili er heimili fólks. Þannig að það sé hægt að útskrifa einhvern af hjúkrunarheimili, af sínu heimili ætti að vera óhugsandi,“ segir yfirlæknir heilabilunareiningar.

Alls kyns glufur eru á þjónustunni sem mismunandi aðilar veita, til að mynda er dagþjálfun ekki í boði um helgar. Þetta kom fram á Heilbrigðisþingi í gær.

Steinunn Þórðardóttir, yfirlæknir heilabilunareiningar Landspítalans, segir að samfella og samþætting sé ekki í þjónustu við eldra fólk.

„Eins og staðan er í dag gengur okkur sem erum að veita þjónustu ekkert sérstaklega vel að vinna saman. Kerfin eru allt of brotakennd,“ segir Steinunn. 

Sveitarfélög, heilsugæsla og sjúkrastofnanir eru meðal þeirra sem veita eldra fólki þjónustu.

„Það þarf bara einhvers konar grettistak í því að samhæfa krafta okkar,“ segir Steinunn og bætir við að ekki skorti velvilja hjá þeim sem sinna eldra fólki. 

Steinunn segir að eldra fólk eigi að fá þá þjónustu sem þeim hæfi hverju sinni.

„Þannig er það ekki núna. Við erum öll einhvern veginn argandi og gargandi hvert í sínu horni,“ segir Steinunn. 

Hún segir að þess séu dæmi að fólk með langt gengna heilabilun sé útskrifað af hjúkrunarheimilum.

„Hjúkrunarheimili er heimili fólks. Þannig að það sé hægt að útskrifa einhvern af hjúkrunarheimili, af sínu heimili ætti að vera óhugsandi,“ segir Steinunn.

Hlutfall faglærðs starfsfólks á hjúkrunarheimilum er langt undir viðmiði Landlæknisembættisins.

„Það kemur fyrir að íbúar þar búa við það erfið einkenni að starfsfólk hefur ekki burði til að annast það,“ segir Steinunn. 

Einkenni geta verið þau að fólk áttar sig ekki á því hvar það er statt og verði bæði hrætt og reitt.

„Til dæmis ef það upplifir að það sé verið að halda þeim á röngum stað fjarri heimilinu. Það er alltaf á leiðinni eitthvert annað og svo ef það upplifir mótstöðu við þær áætlanir þá getur það brotist það fram í handalögmálum meðal annars. Við verðum að kunna að bregðast við hvernig við eigum að nálgast manneskju sem líður á þennan hátt. Það má ekki vera stál í stál því það vill gera einkenni verri. Það t.d. að þurfa að grípa til nauðungarlyfjagjafar er mjög erfitt úrræði sem skilur eftir sig spor en við þurfum stundum að gera það því það skortir þessa fagþekkingu í nálguninni við fólkið,“ segir Steinunn.

Hún segir að með því að efla þjónustuna inni á hjúkrunarheimilunum og senda þangað viðbragðsteymi mætti koma í veg fyrir að heimilin lendi í ógöngum með fólk með erfiða heilabilun.

Hún segir að margt af því eldra fólki sem er á Landspítalanum gæti búið heima ef stuðningurinn væri meiri.

„Sjúkrahúsið, þetta er eins konar endastöð eða staður þaðan sem ekki er hægt að vísa fólki frá þannig að þangað safnast oft þeir sem hafa ekki aðgang að þjónustu við hæfi annars staðar og þurfa jafnvel að bíða mjög lengi eftir þeirri þjónustu því það er skortur á öðrum þjónustustigum,“ segir Steinunn.
 

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV