Brúðhjónin sendu covid-próf með boðskortinu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Brúðhjónin sendu covid-próf með boðskortinu

21.08.2021 - 18:31

Höfundar

Þau dóu ekki ráðalaus, brúðhjónin sem sáu að stemningin fyrir brúðkaupsveislunni sem halda á í kvöld fór minnkandi samhliða aukinni útbreiðslu veirunnar. Þau sendu einfaldlega covid-próf með boðskortunum. Notkun slíkra prófa gæti aukist mjög hér á landi á næstu misserum.

Bólusettur hluti heimsbyggðarinnar veltir því nú fyrir sér hvernig hægt er að lifa sem eðlilegustu lífi samhliða heimsfaraldri. Íslenskir ráðamenn viðruðu í gær hugmyndir sínar um að hraðpróf, eða skyndipróf, væru lykillinn að stærra viðburðahaldi. Sjá þau fyrir sér að prófin verði stór hluti af daglegu lífi um ófyrirsjáanega framtíð. Slík próf eru nú þegar notuð víðs vegar í Evrópu en það hefur minna borið á þeim hér á landi, þótt eftirspurnin sé mikil.

Fundu stemninguna dvína samhliða hækkandi smittölum

Tilefnin eru ærin. Það hefur til dæmis reynst flókið að halda brúðkaupsveislur í faraldrinum. Þau Jón Torfi Hauksson og Sara Björgvinsdóttir giftu sig í Hollandi fyrra og efna til veislu hér heima í kvöld. Boðskort þeirra eru með frekar óhefðbundnum hætti því þeim fylgdi covid-próf sem allir gestir þurfa að taka. Ef niðurstaðan er neikvæð mæta þau og fagna með brúðhjónunum en ef hún er jákvæð, þá er engin veisla fyrir viðkomandi.

„Við búum erlendis og ástæðan fyrir því að við komum heim í sumar var til að halda tvær veislur. Við byrjuðum á að skíra dóttur okkar fyrir svona þremur vikum og þegar við héldum þá veislu þá fundum við að stemningin var ekki alveg nógu eðlileg, fólk var smeykt að koma og allir að halda sig í sitt hvoru horninu þótt þetta hafi verið haldið utan dyra. Og þá fórum við að pæla hvernig við gætum gert þetta þannig að öllum líði vel,“ segir Jón Torfi.

Í ljós kom að einn brúðkaupsgesta er búsettur í Þýskalandi þar sem covid-skyndipróf eru seld úti í búð. Hún var því send út í búð og látin fylla farangurinn af hraðprófum. Framtakið hefur mælst afar vel fyrir á meðal gesta. „Ég held að öllum líði bara miklu betur út af því að það eru óléttar konur að koma og svona þannig að stemningin á að vera nokkuð góð í kvöld.“

Ekki hömlulaus gleði en fólk getur andað léttar

Jón Torfi og Sara búa í Hollandi og þar eru þessi próf einnig víða notuð. Þar sem þau eru bólusett þurfa þau eingöngu að taka svona próf við komuna þangað og einnig hafa þau tekið próf fyrir minni mannfagnaði. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum veitir prófið 97 prósenta nákvæmni sé það rétt tekið. En gleðin verður þó ekki alveg hömlulaus þótt allir greinist neikvæðir. „Ég myndi nú ekki segja alveg hömlulaus því við verðum auðvitað að passa okkur líka. Maður getur kannski aðeins andað léttar. Við bjóðum líka upp á spritt á öllum borðum og ef fólk vill fá grímur þá erum við með grímur og allt,“ segir Sara.

Einn þeirra brúðkaupsgesta sem tóku prófið í dag er Vilhjálmur Ólafsson. Hann fylgdi nákvæmum leiðbeiningum sem Jón Torfi hafði snarað á íslensku og var framkvæmdin tiltölulega einföld og fljótleg. Niðurstaða liggur fyrir að 15 mínútnum liðnum. „Ég er neikvæður. Ég er ekki með covid,“ sagði Vilhjálmur þegar niðurstaða lá fyrir og verður þar af leiðandi meðal veislugesta í kvöld.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Sjá hraðpróf sem lykilinn að opnara samfélagi