Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Breiðablik einu stigi frá toppsætinu eftir sigur á KA

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Breiðablik einu stigi frá toppsætinu eftir sigur á KA

21.08.2021 - 19:54
Breiðablik og KA mættust í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld. Liðin voru fyrir leikin í 3. og 4. sæti deildarinnar en með sigrinum kom Breiðablik sér upp í 2. sætið, aðeins einu stigi frá toppliði Vals.

Leiknum var frestað um tvo klukkutíma eftir að flugi KA-manna frá Akureyri seinkaði. Hann var þó loks flautaður á klukkan 18 á Kópavogsvelli. Blikar byrjuðu betur og það var Gísli Eyjólfsson sem kom heimamönnum yfir með skoti sem fór í slánna og inn. Blikar voru því yfir 1-0 í hálfleik. 

Bæði lið áttu ágætis spretti í seinni hálfleik en það var Viktor Karl Einarsson sem skoraði fyrir Breiðablik á 73. mínútu eftir stoðsendingu frá Gísla Eyjólfssyni. Þetta reyndist lokamark leiksins og mikilvægur 2-0 sigur Blika niðurstaðan. 

Þeir eru þar með komnir upp að hlið Vals á toppi deildarinnar, með 35 stig en Valur er með 36. KA er hins vegar enn í 4. sætinu. Öll liðin hafa spilað 17 leiki og því verða lokaumferðirnar æsispennandi. Víkingur er með 33 stig í 3. sæti, tveimur stigum á eftir Breiðablik og þremur stigum á eftir Val en Víkingur og Valur mætast einmitt á Víkingsvelli á morgun. Þá munu Breiðablik og Valur mætast í næst síðustu umferð tímabilsins, 13. september.