Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Berjabláar brekkur víða á landinu

21.08.2021 - 12:10
Bláber á bláberjalyngi.
 Mynd: RÚV
Berjaspretta er með besta móti víða um landið í ár. Kuldi framan af vori setur sumstaðar strik í reikninginn. Þó að samkomutakmarkanir séu í gildi er hægt að eiga notalegar stundir í guðs grænni náttúrunni, áhyggjulaus.

Margir hafa það sem sið að leggjast út í brekkur og tína ber á þessum árstíma og geyma til vetursins. Þeir sem tína eiga misgott með að standast freistinguna að stinga uppskerunni upp í sig. Sigurbjörg Snorradóttir hefur um árabil þrætt berjalyng landsins. Henni lýst vel á berjaárið.

„Fólk þarf bara að hafa svolítið fyrir því að leita núna. Það gengur ekki alveg að þessu vísu. Það er víðast hvar mjög stór og falleg ber og ótrúlega mikið af bláberjum í ár.“

Ég veit að það er yfirleitt algjört hernaðarleyndarmál en hvar eru bestu berjalöndin?

Sko það er rosalega víða fyrir vestan óskaplega fallegar slóðir sem hægt er að tína á og  norðan líka.“ segir Sigurbjörg.

Kuldi framan af vori setur strik í reikninginn sumstaðar, þá sérstaklega á aðalbláberin en á heildina litið segir Sigurbjörg að berjaspretta sé með mesta móti. Þurrt og sólríkt sumar norðan og austanlands hafði einnig áhrif, vætuna skorti. Næturdögg af þoku undanfarið hefur hleypt nýju lífi í berin. 
Og berjatínsla fellur vel að þeim samkomutakmörkunum sem eru í gildi í samfélaginu. 

„Þetta er svo mikil víðátta. Maður hittir kannski 2-3 í mónum í einu, það er ekki meira.“

Þannig að fólk getur gert sér glaðan dag?

Algjörlega og nýtt sér náttúruna.“ segir Sigurbjörg.