
Talibanar segja klæðaburð fréttakvenna óásættanlegan
Saad Mohseni, yfirmaður Tolo sjónvarpsstöðvarinnar, segir í samtali við BBC að honum hafi borist óljós skilaboð frá Talibönum, þess efnis að ekki sé ásættanlegt hverju fréttakonur sjónvarpsstöðvarinnar klæðast í útsendingu.
Undanfarin tuttugu ár hefur úrval fjölmiðla í Afganistan aukist svo um munar, tugir sjónvarpsstöðva senda út á hverjum degi og næstum tvöhundruð útvarpsstöðvar.
Mohseni segir að hyggist Talibanar gefa út tilskipun um fataval kvenna í sjónvarpi skuli þeir gera það í stað þess að senda tilviljanakennd skilaboð þess efnis.
Hann kveðst þeirrar skoðunar að Talibanar séu að koma á einhvers konar þynnri útfærslu Sjaría-laga til að fá veröldina til að trúa því að þeir séu eftirlátssamari og mildari en forðum.
Mohseni segir sjónvarpsstöðina stunda sjálfsritskoðun þessa dagana með því að senda ekki út efni sem alltaf hefur verið þyrnir í augum Talibana. Meginverkefnið nú sé að tryggja öryggi allra fjögurhundruð starfsmanna stöðvarinnar en Mohseni álítur að nokkrir séu í bráðri lífshættu.
Svo séu aðrir sem vilji ekki eiga heima í Afganistan Talibana og þeim verði hjálpað við að komast á brott, það geti þó verið þrautin þyngri enda upplausn enn mikil við flugvöllinn.
Þýski fjölmiðilinn Deutsche Welle segir blaða- og fréttamenn og fjölskyldur þeirra vera í bráðri lífshættu í Afganistan en Talibanar myrtu á miðvikudag ættingja afgansks fréttamanns sem unnið hefur fyrir miðilinn.
Mohseni er þungorður í garð vestrænna ríkja sem hann segir að hafi átt að sýna meiri ábyrgð við brotthvarf hersveita þeirra.