Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lág laun skýra fjölda utan heilbrigðiskerfisins

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Þúsundir heilbrigðismenntaðra starfa utan heilbrigðiskerfisins, samkvæmt úttekt Bandalags háskólamanna. Formaður félagsins segir helstu ástæðuna liggja í lágum launum þar sem sérstaklega hallar á konur.

Þriðjungur menntaðra hjúkrunarfræðinga starfar utan heilbrigðiskerfisins, nær helmingur lækna og ljósmæðra og sextíu prósent sjúkraliða, samkvæmt samantekt BHM sem byggð er á tölum frá landlækni.

Alls voru tæplega 11 þúsund starfandi heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi í fyrra, 83 prósent þeirra eru konur. Rætt hefur verið um að skortur á nýliðun sé vandamál í þessum greinum en Friðrik Jónsson, formaður BHM, segir þessar tölur sýna að vandamálið sé djúpstæðara en svo. Bæði sé skortur á jákvæðum hvötum til að sækja sér menntun á þessu sviði og til að starfa innan heilbrigðiskerfisins í framhaldinu.

„Stóri jákvæði hvatinn væri fyrst og fremst sá að launin væru samkeppnishæf. Fólk er búið að mennta sig til ákveðinna starfa og fá sérfræðiþekkingu í ákveðnu fagi en velur svo að starfa ekki við það fag. Það má gera ráð fyrir því að ein af stærstu ástæðunum sé sú að launin séu ekki ásættanleg og þeim bjóðist betra annars staðar,“ segir Friðrik.

Hallar mjög á konur í heilbrigðisstéttum

Jákvæðir hvatar geta tengst starfsumhverfi og álagi en einnig hvötum til menntunar. Nefnir Friðrik atriði sem tengjast námslánakerfinu eða sérstaka styrki eða afslætti eins og gert var varðandi kennaranám á sínum tíma. Hvað launin varðar segir Friðrik að laun heilbrigðisstétta standi öðrum háskólamenntuðum stéttum töluvert að baki, einkum í þeim stéttum þar sem konur eru í meirihluta. „Það hallar mjög á sérfræðistéttir þar sem konur eru í miklum meirihluta og þá sérstaklega innan heilbrigðisgeirans.“

Samkvæmt samantekt BHM er staðan, greind eftir fagstéttum þessi:

64% hjúkrunarfræðinga starfa innan heilbrigðisgeirans

48% ljósmæðra starfa innan heilbrigðisgeirans

53% lækna starfa innan heilbrigðisgeirans

41% sjúkraliða starfa innan heilbrigðisgeirans

66% tannlækna starfa innan heilbrigðisgeirans

52% lífeindafræðinga starfa innan heilbrigðisgeirans

Friðrik segir að þessar tölur, sem koma frá Landlækni, gefi góðar vísbendingar þótt þær séu ekki hárnákvæmar. Eins og gengur kunni einhverjir að vera hættir störfum og einnig margir starfi erlendis. Á það einkum við um lækna.

Magnús Geir Eyjólfsson