Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvaðan koma eiginlega þessi tekjublöð?

20.08.2021 - 13:42
Mynd: RÚV / RÚV
Umfjöllun um tekjur Íslendinga hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarna daga. Þar fer fremst í flokki hið rótgróna tekjublað Frjálsrar verslunar, þar sem tekjur 4.000 Íslendinga árið 2020 eru birtar. Í blaðinu er fólk flokkað eftir starfstitlum og þar má meðal annars finna forstjóra, hjúkrunarfræðinga og áhrifavalda.

Umfjöllun um tekjur fólks voru örskýrðar í Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

En hvernig verður svona umfjöllun til? Hvernig komast fjölmiðlar að því hvað fólk er með í laun og er sniðugt að birta tölurnar? Og hvernig er það, birtast alltaf rétt laun í svona blöðum? Við skulum örskýra eitt af þessu málum sem kaffistofur landsins elska. 

Þann 31. maí birtist tilkynning á vef Skattsins undir fyrirsögninni: Tölulegar upplýsingar um álagningu einstaklinga 2021. Þrátt fyrir fögur fyrirheit eru upplýsingarnar í tilkynningunni ekkert sérstaklega spennandi en í niðurlagi hennar kemur fram að álagningarskrá einstaklinga verði lögð fram 17. ágúst og liggi fyrir í 15 daga, eða til 31. ágúst.

Álagningarskráin er sem sagt ekki birt á vefnum heldur liggur hún fyrir hjá Skattinum, þar sem fjölmiðlar og raunar öll sem hafa áhuga geta mætt og rýnt í tölurnar. Til að komast að því hversu mikið fólk þénaði á mánuði þarf að rífa upp vasareikninn og reikna það út út frá upplýsingum hvers og eins.

Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er sérstaklega tekið fram að tekjurnar sem koma fram í blaðinu þurfi ekki að endurspegla föst laun viðkomandi heldur geta aukastörf, bónusar og önnur hlunnindi spilað inn í.

Og eru þetta alltaf réttar upplýsingar sem birtast í fjölmiðlum?

Já, tölurnar eru eflaust flestar réttar þó vafasamt sé að tengja töluna beint saman við starfstitil viðkomandi einstaklinga í öllum tilvikum. 

Þá geta mannleg mistök átt sér stað. Í tekjublaði Frjálsar verslunar í ár er útvarpsmaðurinn Máni á Xinu til dæmis nefndur tvisvar, með mismunandi mánaðarlaun.

Í einstaka tilvikum hafa tölurnar verið svo fjarri sannleikanum að fólk hefur óskað eftir opinberum leiðréttingum. Lögmaður, sendiherra Íslands í Lundúnum og forstjóri Samherja eru á meðal þeirra sem hafa óskað eftir slíku á síðustu árum en mistökin hafa ýmist verið Skattsins eða Frjálsrar verslunar.

En er ekki bara rugl að vera að birta þetta?

Skiptar skoðanir eru um tekjublöð fjölmiðla. Bent hefur verið á að þessi umfjöllun sýni svart á hvítu misskiptingu í þjóðfélaginu á meðan aðrir efast um að birting upplýsinganna eigi erindi við almenning.

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi útgefandi Frjálsrar verslunar, sagði í viðtali á Hringbraut árið 2015 að fjöldi atvinnurekenda hefði þrýst á hann um að hætta útgáfu tekjublaðsins.

Áður hafði hann sagt að upplýsingar um launakjör væru mikilvægar öllum þeim sem hyggjast fara í nýtt starf eða vilja finna út hvar þeir standa miðað við aðra í sömu stétt.

Já, ókei, en af hverju komu engin tekjublöð út í fyrra?

Ekki var fjallað um tekjur Íslendinga með þessum hætti í fyrra og ástæðan var einföld: COVID-19. Álagningarskrá einstaklinga var ekki lögð fram vegna þess að þegar það er gert gerir fjöldi manns sér ferð í afgreiðslu Skattsins um land allt til að fletta í gögnunum, sem eins og áður segir, eru ekki birtar á vefnum. Það voru því samkomutakmarkanir sem komu í veg fyrir útgáfu tekjublaðanna í fyrra. 

Gott og vel en hvað gerist næst?

Útgáfa á þessum upplýsingum heldur áfram, nema lögum um birtingu á álagningarskrá einstaklinga verði breytt. 

Og ef þú vilt komast hærra á listann þarftu að spýta í lófana og drífa þig í launaviðtal — helmingur ársins sem fjallað verður um í ágúst á næsta ári er liðið. 

atlifb's picture
Atli Fannar Bjarkason