Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vopnuð andspyrnuhreyfing undir stjórn varaforsetans

epa09417741 Taliban fighters patrol in Kandahar, Afghanistan, 17 August 2021. Taliban co-founder Abdul Ghani Baradar, on 16 August, declared victory and an end to the decades-long war in Afghanistan, a day after the insurgents entered Kabul to take control of the country. Baradar, who heads the Taliban political office in Qatar, released a short video message after President Ashraf Ghani fled and conceded that the insurgents had won the 20-year war.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands sagði frá því í dag að vopnuð andspyrnuhreyfing væri að myndast gegn Talibönum í Panjshir-dal, skammt frá Kabúl. Varaforseti Afganistan er einn þeirra sem sagður er fara fyrir hópnum.

Panjshir-dalurinn er um 65 kílómetra norðaustan við höfuðborgina Kabúl en Talibanar hafa ekki enn hertekið hann. Lavrov hélt blaðamannafund í Moskvu í dag eftir fund með líbískum kollega sínum. 

Þar greindi hann frá því að Amrullah Saleh varaforseti og Ahmad Massoud færu fyrir vopnuðum sveitum sem hygðust snúast gegn Talibönum. Sá síðarnefndi er sonur Ahmed Shah Massoud foringja Norðurbandalagsins sem barðist gegn Talibönum á valdatíð þeirra 1996 til 2001. 

Bandalagið barðist ásamt herjum Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins í innrásinni haustið 2001 og var hluti þeirrar stjórnar sem mynduð var eftir fall Talibana.  

Lavrov ítrekaði ákall sitt um stjórnarmyndunarviðræður allra stjórnmálaafla í Afganistan. Stjórnvöld í Moskvu hafa varann á gagnvart Talibönum en hafa rætt við forystumenn þeirra. 

Það er að sögn í þeim tilgangi að vernda nágrannaríkin sem áður voru hluti Sovétríkjanna. Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu segir að almannafriður væri að komast á í Afganistan og að þeir hafa sýnt vilja til samráðs. Jafnframt gætir bjartsýni um að Talibanar standi við loforðin um að tryggja réttindi kvenna í landinu. Dmitry Zhirnov, sendiherra Rússlands í Afganistan, fundaði með leiðtogum Talibana fyrr í vikunni auk þess sem fulltrúar þeirra hafa heimsótt Moskvu, seinast nú í júlí.