Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verjast allra frétta af hoppukastalaslysinu á Akureyri

19.08.2021 - 10:59
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Lögreglan á Norðurlandi eystra vill ekki veita neinar upplýsingar um gang rannsóknar embættisins á slysi sem varð í hoppukastala á Akureyri 1. júli.

Lögreglurannsókn frá 1. júlí

Tíu börn fengu aðhlynningu á Sjúkrahúsinu á Akureyri eftir hátt fall úr hoppukastalanum sem tókst á loft við Skautahöllina á Akureyri 1. júlí. Börnin voru útskrifuð eftir meðhöndlun. Eitt barn, sex ára, slasaðist meira og var sent á gjörgæsludeild Landspítalans með fjöláverka. Lögreglurannsókn hófst þann sama dag.

Sjá einnig: Lögreglurannsókn hafin á hoppukastalaslysinu

Málið yfirgripsmikið

Engar upplýsingar hafa borist frá lögreglunni um gang rannsóknarinnar frá 16. júlí þegar tilkynning birtist á Facebook-síðu lögreglunnar. Þar kemur fram að rannsókn málsins sé í fullum gangi og fyrirséð að málið sé yfirgripsmikið og lögregla veiti ekki frekari upplýsingar um rannsóknina að svo stöddu. 

Ætla ekki að tjá sig 

Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir í samtali við fréttastofu að lögreglan ætli ekki að tjá sig frekar um málið. Gefin verði út tilkynning síðar.

Hópslysaáætlun virkjuð í fyrsta sinn

Sjónarvottar hafa lýst því að vindhviða hafi rifið upp horn hoppukastalans og þeytt því í loft upp. Börn hafi skotist úr hoppukastalanum líkt og úr teygjubyssu. Viðbragðsaðilar voru ræstir út samkvæmt hópslysaáætlun en það er í fyrsta sinn sem ræst er út samkvæmt henni á þessu svæði.