Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Trúi því ekki að það fari nokkur að spreyja fuglinn“

19.08.2021 - 09:32
Mynd: RÚV / Hjalti Stefánsson
Ekki er vitað hver skildi ungan hettumáf eftir á víðavangi á Borgarfirði eystra, þakinn litsterku lakki. Finnandinn segir erfitt að kyngja að nokkrum hafi dottið í hug að úða málningu á dýrið. Hann íhugar að kæra það til viðeigandi yfirvalda.

„Ég fann hann hér inni á sveit í göngutúr, en ég hef ekki hugmynd um hvaðan hann kemur,“ segir Rúnar Geirsson. Fuglinn er útataður í einhvers konar málningu, sem hefur skaðað hann talsvert.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Stefánsson
Rúnar með hettumáfinn

„Ber öllum saman um að þetta sé bara eitthvað fúsk“

„En ég trúi því ekki að það fari nokkur að spreyja fuglinn. Ég á voðalega bágt með að kyngja því. Og sjá á brjóstið á honum hvernig það er litað. Ég bara næ því ekki að það sé hægt að lita fuglinn svona.“ Og hann er merktur, líklega með heimatilbúnu merki. Alla vega ekki viðurkenndu fuglamerki. „Það ber nú öllum saman um að þetta sé bara eitthvað fúsk,“ segir Rúnar.

Er aðeins farinn að rétta úr vængjunum

Hann segir að svo virðist sem fuglinn hafi talsvert verið á meðal manna, hann sé það spakur og óhræddur. Hann étur og drekkur en getur ekki flogið. „Ja hann hefur ekki flogið ennþá, en hann er farinn að rétta úr vængjunum sem hann gerði ekki í gær. Hann hefur verið að éta bláber og þorsk. En hann bjargar sér ekki sjálfur úr því sem komið er held ég.“

Íhugar að tilkynna þetta til dýraverndaryfirvalda

„En hvað finnst þér um að fara svona með fuglinn?“
„Það getur nú hver sagt sér það sem spyr. Það á ekki að fara svona með þá.“ Og það komi til greina að tilkynna þetta til dýraverndaryfirvalda. „Ja...það hefur komið til tals, ég veit ekki hvað verður,“ segir Rúnar.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV