Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Loftslagsskógarnir munu binda 1000 tonn af CO2

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Skógræktarfélag Reykjavíkur
Gróðursetning Loftslagsskóga Reykjavíkurborgar hófst í sumar og er búið að gróðursetja um 2.500 plöntur. Skógarnir, sem eiga að þekja um 150 hektara í hlíðum Úlfarsfells, munu binda yfir þúsund tonn af koltvísýringi á ári þegar gróðursetningu verður lokið. Samningur um skógana var undirritaður á 70 ára afmæli Heiðmerkur síðasta sumar.

Kolefnisbinding, skjól og útivist

Skógarnir, sem munu með árunum gjörbreyta svæðinu umhverfis Úlfarsfell, eru hugsaðir bæði til kolefnisbindingar og útivistar. Hver hektari skóglendis mun binda um sjö tonn af koltvísýringi á ári.

„Gríðarleg tækifæri felast í að auka skógrækt til að hamla gegn loftslagsbreytingum og búa um leið til fallegt, gróskumikið og verðmætt umhverfi,“ segir í fréttatilkynningu frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Almenningur hvattur til að gróðursetja

Verkefnið er unnið í samstarfi Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur og boðað var til fyrsta almenna gróðursetningardagsins á laugardag. Um fimmtíu manns tóku þátt og góðursettu yfir 1.000 plöntur.

Félagið segist stefna að því að halda fleiri gróðursetningardaga í Loftslagsskógunum – bæði fyrir almenning og afmarkaða hópa.

Síðastliðinn laugardag var settur niður ilmreynir, ryðelrir, lensuvíðir, sitkagreni, bolvíðir, sitkaelrir og ein tegund rifsberjarunna. Skógræktarfélagið segir valið miðast við að „upp vaxi fjölbreyttur blandskógur sem henti vel til útivistar.“