Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fjögur smit tengd leikskólanum á Seyðisfirði

Seyðisfjörður í júní 2021
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fjögur COVID-19 smit hafa nú greinst á Seyðisfirði í tengslum við leikskóla bæjarins, en greint var frá smiti á leikskólanum í fyrradag. Töluverður fjöldi er í sóttkví í tengslum við þessi smit og er heildarfjöldi í sóttkví á Austurlandi kominn í 58 manns. Sjö manns eru nú í einangrun á svæðinu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá aðgerðastjórn COVID-19 á Austurlandi.

Börnum, foreldrum og starfsfólki leikskólans var boðið í sýnatöku í gær. Þá greindust tvö smit til viðbótar við þau tvö sem kunnugt var um í fyrradag, en báðir aðilar voru í sóttkví. Aðgerðastjórnin segist binda vonir við að tekist hafi að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Lögreglustjórinn á Austurlandi hvetur til ítrustu sóttvarna og biðlar til fólks á svæðinu að fara í sýnatöku, finni það fyrir minnstu einkennum.