Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enginn upplýsingafundur - „Ekki þörf á því í dag“

19.08.2021 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Það verður ekki upplýsingafundur Almannavarna í dag eins og síðustu fimmtudaga. Fjöldi þeirra sem greindist með COVID-19 í gær er svipaður því sem verið hefur, í kringum 100.

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna, segir að nú sé staðan tekin dag frá degi en það sé alls ekki þannig að síðasti fundurinn hafi verið haldinn. „Útgangspunkturinn hjá okkur frá upphafi var að vera með fund þegar við hefðum eitthvað að segja, þrátt fyrir að við getum alltaf sagt eitthvað þá töldum við ekki þörf á því í dag,“ segir Hjördís. 

124 smit greindust í fyrradag, þar af voru 54 utan sóttkvíar. Þá voru fleiri sýni tekin en dagana þar á undan en sóttvarnayfirvöld meta það sem svo að toppnum á þessari stærstu bylgju til þessa hafi verið náð. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði á dögunum minnisblaði til heilbrigðisráðherra um framtíðarsýn sína í sóttvarnarmálum. Þar lagði hann meðal annars til áframhaldandi fjöldatakmörk, sem gætu miðast við 200. Grímuskylda verði áfram þar sem ekki sé hægt að tryggja nándarmörk, sérstaklega innanhúss. Veitinga- og skemmtistaðir verði áfram opnir til 23 og gefa þurfi út leiðbeiningar um reglubundnar skimanir með PCR eða antigen-prófum í fyrirtækjum og á vinnustöðum. Þá lagði hann einnig áherslu á að styrkja og efla heilbrigðiskerfið, sýkla- og veirufræðideild og almannavarnir til lengri tíma, svo kerfið ráði við álagið sem fylgir faraldrinum.