Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Það væri hægt að tryggja strandveiðar út ágúst“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Strandveiðar við Íslandsstrendur verða að óbreyttu stöðvaðar á morgun þegar aflaheimildir klárast, er fram kemur í tilkynningu frá Fiskistofu. Óvenju vel hefur veiðst af þorski í ágúst eða um 70% meira en á sama tíma í fyrra. Örn Pálsson formaður Félags íslenskra smábátaeigenda hefur kallað eftir því að byggðakvóti verði notaður svo ekki þurfi að stöðva veiðarnar.

800 tonn byggðakvóta ónýtt

Smábátaeigendur hafa bent á svokallaðan byggðakvóta sem Fiskistofa úthlutar, en stór hluti þess kvóta var ónýttur á síðasta ári. Örn telur að sá byggðakvóti sem yrði ekki nýttur í ár gæti numið allt að 800 tonnum.

„Það kemur í ljós að þar eru nokkur tonnin sem að við viljum nýta á fiskveiðiárinu, til þess að tryggja strandveiðarnar út ágúst,“ segir Örn. „Ef að það yrði heimilað, þá yrði samt sem áður ekki veitt umfram leyfilegan heildarafla í þorski.“

Spurður hvaða þýðingu viðbótaraflaheimildin hefði fyrir sjómenn, sagði Örn að það myndi muna mjög miklu. „Í staðinn fyrir að allir bátar yrðu bundnir við bryggju á morgun, þá yrði þeir líklega allir á sjó.“

Búið að bæta við 1.200 tonnum

Sjávarútvegsráðuneytið hefur nú þegar bætt 1.200 tonnum við aflaheimildir til strandveiða, en sjávarútvegsráðherra hefur sagt að þær verði ekki auknar frekar.

„Aflinn það sem af er ágúst hann er um sjötíu prósent meiri en var í ágúst í fyrra. Þessi viðbót sem kom, hún dugir ekki til,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.