„Ég hef sem betur fer aldrei farið til útlanda“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég hef sem betur fer aldrei farið til útlanda“

18.08.2021 - 10:41

Höfundar

Það er alger óþarfi að fara erlendis ef maður hefur séð nóg af útlöndum í sjónvarpinu, samkvæmt sveiflukónginum skagfirska Geirmundi Valtýssyni. Hann hefur þó heimsótt Hrísey, Grímsey og Vestmannaeyjar og finnst það alveg nóg.

Tónlistarmaðurinn Geirmundur Valtýsson er heimsóttur í nýjasta þætti Með okkar augum sem er á dagskrá í kvöld. Hann tók á móti hópnum og bauð þeim inn í fjárhús og sló auðvitað upp harmonikkuballi í stofunni heima hjá sér á Sauðárkróki þar sem hann býr með Mínervu Björnsdóttur konu sinni og ferfættum heimilisdýrum. Andri Freyr Hilmarsson ræddi við sveiflukónginn um bransalífið, rollurnar og tónleikaferðalögin.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Auðvitað var slegið upp harmonikkuballi í stofunni.

Hann segist ekki vera síðri rokkari en þegar hann var þrítugur og steig sín fyrstu skref í sveiflubransanum, en viðurkennir að hafa stirðnað aðeins. Hann heldur sér samt léttum og nokkuð þéttum með því að vera duglegur að sinna sauðfénu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er líf og fjör í fjárhúsinu nú þegar lömbin eru komin á kreik.

Rokkaralífernið þekkir hann ágætlega en í tilfelli Geirmundar er það ekki eins villt og hjá mörgum. Hann er bindindismaður og lætur frægðina ekki stíga sér til höfuðs. Geirmundur hefur troðið þó upp á ábyggilega öllum stöðum landsins en hann kveðst aldrei hafa haldið út í heim. „Sem betur fer hef ég aldrei farið til útlanda. En ég hef farið út í Hrísey, út í Grímsey og til Vestmannaeyja að spila,“ segir Geirmundur sem kveðst þekkja útlönd ágætlega á því sem hann hafi séð á skjánum. „Ég er búinn að horfa á sjónvarp dálítið lengi, alla mína ævi, og er búinn að horfa á myndir frá útlöndum. Ég er bara búinn að sjá það sem mig langar að sjá.“

Með okkar augum er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:05.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég held ég sé mildur, feminískur kommi“

Tónlist

„Ég er náttúrulega geggjaður, sko“