Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segist ekki skoða „persónuleg samskipti lögreglumanna“

17.08.2021 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur skrifað bréf til lögreglumanna þar sem hún fullvissar þá um að nefndin skoði einungis upptökur úr búkmyndavélum sem varði umkvörtunarefni borgara en „ekki persónuleg samskipti lögreglumanna sín á milli um daginn og veginn.“ Hún hvetur lögreglumenn til að nota búkmyndavélar. Þær hafi í auknum mæli staðfest að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar eftir kvartanir.

Bréfið var birt á vef nefndarinnar fyrir helgi. Þótt það sé ekki sagt með berum orðum má rekja það til þeirra umræðu sem spratt upp í tengslum við Ásmundarsalar-málið svokallaða sem kom upp á Þorláksmessu.

Það rataði í fjölmiðla á aðfangadagsmorgun þegar lögreglan greindi frá því í dagbókarfærslu að hún hefði leyst upp samkvæmi vegna sóttvarnabrota og að meðal gesta hefði verið háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Síðar kom í ljós að umræddur ráðherra var Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Salurinn var eingöngu sektaður fyrir brot á grímuskyldu, um hálfu ári eftir að málið kom upp.

Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu tók málið upp að eigin frumkvæði auk þess sem kvörtun barst frá eigendum Ásmundarsalar. Nefndin komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að háttsemi tveggja lögreglumanna, sem komu á vettvang, gæti talist ámælisverð. Tilefni væri til að senda þann þátt til meðferðar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.  

Á upptöku úr búkmyndavél annars þeirra heyrðist hann segja: „„Hvernig yrði fréttatilkynningin ... 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar ... er það of mikið eða?“  Hinn svarar: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það. Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar Sjálfstæðis... svona... frampotarar eða þú veist.“ 

Formaður Landssambands lögreglumanna sagði þessa niðurstöðu líkjast ritskoðun á því sem lögreglumenn hugsuðu og furðaði sig á þeirri ítarlegu meðferð sem málið fékk hjá nefndinni. Sambandið sendi tvö erindi á Persónuvernd, annars vegar hvort vinnubrögð nefndarinnar hefðu samræmst lögum og hins vegar hvers vegna nefndin hefði unnið úrskurð sinn eins og raun bar vitni.

Í bréfi sínu segir nefndin að tilgangur með yfirferð upptaka úr búkmyndavél eða upptökukerfum sé að varpa ljósi á atvikalýsingu af vettvangi sem ágreiningur er um. 

Það hafi reynst nefndinni vel að geta varpað ljósi á atvik sem kvartað er undan með því að sjá upptöku úr búkmyndavélum. „Hafa þær oftar en ekki sýnt fram á tilhæfuleysi kvartana bæði yfir starfsháttum og framkomu lögreglumanna.“ Þær hafi þó einnig sýnt starfsaðferðir og háttsemi sem teljist ámælis- eða refsiverð. 

Nefndin áréttar að hún skeyti engu þegar lögreglumenn ræði mál sín á milli og hún fullvissar þá að hún skoði „einungis það er varðar umkvörtunarefni borgara en ekki persónuleg samskipti lögreglumanna sín á milli um daginn og veginn.“

Fréttastofa óskaði eftir því að nefndin afhenti ákvörðunina á grundvelli upplýsingalaga. Þeirri beiðni var hafnað og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Í svari til úrskurðarnefndarinnar segir nefndin meðal annars að í ákvörðuninni komi fram trúnaðarupplýsingar um umrætt mál. Þá sé meðferð málsins ekki lokið af hálfu lögreglustjóra né af hálfu nefndarinnar.