Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýr gígur á Fagradalsfjalli

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Nýr gígur hefur myndast í eldgosinu í Fagradalsfjalli. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir að nýi gígurinn virðist vera óháður eldri gígnum. Einkum tvennt sé áhugavert við gosið. Annars vegar sé það ráðgáta hvað valdi því að það gjósi í hrinum og hins vegar sé áhugavert að allar tegundir basalthrauna sem geti myndast ofan sjávar, hafi myndast við Fagradalsfjall. Til að mynda tannkremstúpuhraun og klumpahraun.

„Núna virðist vera komið nýtt gígop alveg utan í þessum gíg sem hefur verið að gjósa undanfarna mánuði og við köllum Gíg 5. Hvort það er alveg tengt niður í þennan gang sem fæðir gosið eða hvort þetta er útskot frá hrauntjörninni sem er í gígnum er ekki gott að segja á þessu stigi. En þetta virðist vera sjálfstæður gígur sem hagar sé óháð, eða dálítið óháð, þessum stóra sem er við hliðina á,“ segir Þorvaldur. Rætt var við hann á Morgunvaktinni á Rás 1.

Þorvaldur segir að lítið sé vitað um kvikuganginn í gosinu. „Við vitum að gangurinn er þarna. Hversu breiður hann er og hversu langur hann er, er erfitt að segja til um. En við vitum líka annað, að hann nær alla vega niður á 15 km dýpri og jafnvel 17 km dýpi,“ segir Þorvaldur. Þar sé næg kvika. 

Þorvaldur segir að hiti hraunflæðisins upp úr gígum sé mælt með mjög öflugum hitamæli. „Hann skráði í byrjum goss hitastig sem náði allt að 1240 gráðum,“ segir Þorvaldur. „Það sást mjög vel í gær hversu heit og þunnfljótandi hraunbráðin út úr gígnum er. Þetta var alveg eins og góð jökulá á fleygiferð,“ segir Þorvaldur. 

Hefurðu lært eitthvað nýtt af þessu gosi?

„Alveg heilan helling. Það sem mér finnst skemmtilegast í þessu gosi eru kannski tveir þættir. Það er gaman að sjá hvernig þessar hrinur virðast vera nátengdar myndun stórra blaðra. Við fáum ferska kviku koma upp. Hún gefur af sér gas inn í blöðrurnar og blöðrurnar ná að stækka. Við erum að tala um blöðrur sem eru 10 - 20 metrar í þvermál þegar þær koma upp. Þetta eru ekki bara ein eða tvær blöðrur. Þetta er streymi af þeim. Það er það sem heldur kvikustrókavirkninni gangandi í þessum hrinum. Svo náttúrulega dettur þetta niður á milli. Í augnablikinu er það stóra spurningin fyrir okkur: af hverju gerist það? Við erum að reyna að finna út úr því hvað er það sem stjórnar því að þetta er í hrinum,“ segir Þorvaldur.

„Hitt sem mér finnst mjög spennandi líka, og í raun og veru einstakt tækifæri fyrir okkur, það tengist hraunamynduninni. Þetta hraun sem er að myndast þarna hefur búið til allar tegundir hrauna sem við þekkjum ofan sjávar af basalthraunum. Þannig að við erum með apalhraun, helluhraun, klumpahraun, skelhraun, uppbrotið helluhraun, tannkremstúpuhraun og þar fram eftir götunum,“ segir Þorvaldur. 

Það sem valdi sé að hraunið sé misjafnlega þunnt þegar það kemur upp. Einkum tvennt ráði hversu mismunandi þetta sé: „Það er hversu vel einangrað flutningskerfið er, s.s. hitatap við flutning frá gíg til vaxtarstaðar. Svo hitt er landslagið. Þegar það fer niður brekkur þá opnast flutningsrásir og mikill hiti tapast. Þegar það kemur loksins niður í dalinn þá myndast seig apalhraun sem fara ekki langt. Svo lokast þessar rásir á endanum og þá kemur helluhraun út í gegnum apalhraunið og fyllir dalinn,“ segir Þorvaldur.