Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hægt að skylda starfsfólk til að vera bólusett

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Vinnustaðir eins og skólar geta farið fram á að starfsfólk sé bólusett, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann segir að þegar smit koma upp í skólum sé ekki hægt að beita öðrum aðferðum en að sóttkví. 

Kennsla hefst í flestum framhaldsskólum í vikunni. Samkvæmt sóttvarnareglum er ekki skylt að bera grímu þegar nemendur eru sestir niður í kennslustofum. Í skólastarfi síðasta vetrar þurftu oft bekkir, og heilu eða hálfu árgangarnir að fara í sóttkví þegar upp komu smit. Leikskólar og frístundaheimili hafa ekki farið varhluta af smitum og tilheyrandi sóttkvíum undanfarið. Allir starfsmenn í skólum ættu nú að vera bólusettir en ekki liggur fyrir hvort sú sé raunin. Sóttvarnalæknir segir hægt að krefjast þess að starfsfólk skóla sé bólusett: 

„Við erum ekki með bólusetningaskyldu en hins vegar geta vinnustaðir ákvarðað hvar fólk vinnur og við hvaða störf. Og sérstaklega ef verið að vinna með viðkvæma hópa að það geti gert þá kröfu til dæmis að fólk sem er að vinna með viðkvæma hópa að það sé bólusett. Og það er þá á ábyrgð vinnustaðarins að gera það og það er í reglugerð um aðrar bólusetningar. Og ég held að vinnustaðir verði bara að skoða það í því ljósi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hann segir líka mikilvægt að skólarnir skoði hólfaskiptingar svo sóttkví hafi ekki víðtæk áhrif í skólanum. Og það er ekki hægt að beita öðrum minna íþyngjandi aðferðum eins og hraðprófum í stað sóttkvía:   

„Hraðgreiningapróf munu ekki koma í staðinn fyrir sóttkví. Það held ég að verði að vera alveg ljóst.“