Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Til greina kemur að taka við fleiri Afgönum en ella

15.08.2021 - 17:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra segir Ísland verða að axla ábyrgð í Afganistan líkt og önnur NATO-ríki.  Ljóst sé að sú stefna sem rekin hafi verið í Afganistan af hálfu Atlandshafsbandalagsins og tuttugu ára vera hers í landinu hafi ekki skilað þeim árangri sem vonast hafi verið til. Það er að byggt yrði upp annars konar samfélag en áður var í Afganistan. Nú virðist mannúðarkrísa  í uppsiglingu sem sé mikið áhyggjuefni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hennar flokkur, Vinstri græn, hafi verið á móti innrás í Afganistan á sínum tíma. Það breyti því  ekki að sem aðili að Atlantshafsbandalaginu beri Ísland nú ábyrgð sem það verði að axla líkt og önnur ríki sambandsins. 

Til greina kemur að stærri hópur Afgana komi til Íslands en áður stóð til, að sögn forsætisráðherra. Þær breytingar sem séu að verða í Afganistan muni hafa áhrif á stöðu kvenna í landinu. Ísland verði að axla ábyrgð í alþjóðasamfélaginu.

Katrín Jakobsdóttir segir ótrúlegt að sjá þá hraðferð sem Talibanar hafi verið á síðustu vikur, með þeim afleiðingum að hvert héraðið á fætur öðru hafi fallið í þeirra hendur.

„Það breytir því ekki að við öll höfum miklar áhyggjur af því að það sé mannúðarkrísa í uppsiglingu í Afganistan.“ „Hvað með stöðu kvenna? Einn viðmælenda okkar kvað svo fast að orði að nú yrði helmingur þjóðarinnar lokaður inni.“ „Já, það er alveg ljóst að þetta mun hafa áhrif á stöðu kvenna og það skiptir máli að við Íslendingar öxlum okkar ábyrgð í þessu bæði sem meðlimir í Atlantshafsbandalaginu og meðlimir í alþjóðasamfélaginu  og fulltrúar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.“

Flóttamannanefnd tekur málefni Afganistan sérstaklega til skoðunar í vikunni að beiðni félagsmálaráðherra. Forsætisráðherra segir að sérstaklega þurfi að huga að þeim konum sem beitt hafi sér fyrir mannréttindum í Afganistan.

Katrín Jakobsdóttir var spurð að því hvort ríkisstjórnin muni leggja til að það komi stór hópur Afgana hingað eða eingöngu konur og börn? Hún segir málefnið verða rætt á alþjóðavettvangi, bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og líka á norrænum vettvangi, um hvað við getum lagt af mörkum í þessum efnum.

„Þannig að það kemur til greina að hingað komi stærri hópur Afgana en annars hefði verið?“ „Það kemur til greina og þess vegna hefur flóttamannanefnd verið beðin um að taka málin til skoðunar. Þetta munum við líka ræða í þessu alþjóðlega samhengi en já við munum gera það.“

 

Ólöf Rún Skúladóttir