Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Akurhumla nýr landnemi á Austurlandi

Mynd: Hjalti Stefánsson / RÚV
Akurhumla er nýr landnemi sem hefur nú fundist á nokkrum stöðum á Austurlandi. Humlan er smágerðari og kvikari en landsmenn þekkja jafnan úr sínu næsta nágrenni.

Tók eftir óvenjulegum humlum

Borgþór Svavarson, garðyrkjufræðingur, var að stússast í garðinum sínum á Egilsstöðum snemma í júlí þegar óvenjulegar flugur vöktu athygli hans. „Þá var ég eitthvað að skoða blómin í garðinum og sá að það var fullt af flugum þarna og tók eftir því að þær voru ekki allar eins. Þær voru aðeins öðruvísi, sumar, svo ég fór að gúgla á netinu en fann ekkert og fór inn á síðu Náttúrufræðistofnunar og þar var ekkert sem líktist þessu og það vakti áhuga minn.“

Smærri og kvikari

Borgþór tók mynd og sendi á Náttúrufræðistofnun Íslands og fékk svar frá Erling Ólafssyni, skordýrafræðingi, sem telur humluna vera akurhumlu, nýjan landnema. Fyrir eru sex humlutegundir hér á landi og Erling bendir á að miðað við þær humlur sem flestir landsmenn þekkja er akurhumlan minni og kvikari, drottningarnar þó ívið stærri en þernurnar. Þá er hún ekki með eins áberandi rendur eins og sumar hinna humlanna.

Sendi humlu til Náttúrufræðistofnunar

„Hann [Erling] bað mig um að veiða flugu og ég fór og veiddi handa honum flugu og sendi og þá kom staðfesting á þetta væri ný tegund hérna, akurhumla og er sennilega að breiðast út hér austanlands.“ Borgþór bendir á að akurhumlan er ekki með hvítan afturenda, sem greini þær til dæmis að frá hinum humlunum í hans garði. 

Fékk líklega far með Norrænu

Akurhumla fannst fyrst á Eskifirði 2010 og hefur verið þar síðan, þá gæti hún einnig hafa sést á Reyðarfirði en það er óstaðfest, og svo nú á Egilsstöðum. Humlan nam land í Færeyjum um svipað leyti og hér á landi og telur Erling líklegt að humlan hafi borist með Norrænu.

Hjalti Stefánsson, myndatökumaður, tók myndirnar sem fylgja fréttinni.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður