Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tugir handteknir í Hvíta-Rússlandi

13.08.2021 - 04:49
epa09407651 People attend a demonstration in Vilnius, Lithuania, 09 August 2021. The demonstration marks the anniversary of the start of mass demonstrations in Belarus. Following the Presidential election in Belarus on 09 August 2020, hundreds of thousands of Belarusians took to the streets peacefully to demand the resignation of Belarus leader Alexander Lukashenko. During protests about 35,000 people were arrested. Most of the opposition leaders have been jailed or forced to leave the country.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir tuttugu hafa verið handteknir í Hvíta-Rússlandi í aðgerðum yfirvalda til þess að kveða niður mótmæli gegn stjórnvöldum í landinu. Meðal þeirra sem voru handtekin var Andrei Dmitiryeu, sem bauð sig fram í forsetakosningunum gegn Lúkasjenkó í fyrra.

Dmitriyeu var yfirheyrður eftir húsleit í íbúð hans í gær að sögn Guardian. Honum var sleppt lausum síðar í gær, en ekki hefur frést af því hvort hann var ákærður. Ihar Lyaschchenya var einnig handtekinn. Hann er fyrrverandi sendiherra Hvít-Rússa í Slóveníu. Honum er gefið að sök að hafa skipulagt fjöldaóeirðir, og gæti átt yfir höfði sér allt að átta ára fangelsi fyrir. Lyashchenya var meðal þeirra sem gagnrýndi herferð yfirvalda gegn mótmælendum eftir forsetakosningarnar í fyrra, og var sviptur sendiherrastöðu sinni fyrir vikið.

Aðrir sem voru handteknir eru til að mynda lögmenn, stjórnmálamenn og umhverfisverndarsinnar sem áttu þátt í stofnun fjöldahreyfingar sem stefndi á að halda þjóðfund um ástandið í landinu.

Mótmæli spruttu upp víða um Hvíta-Rússland í ágúst í fyrra eftir að úrslit forsetakosninganna voru kunngjörð. Kjörstjórn lýsti yfir stórsigri Lúkasjenkó, og situr hann nú sitt sjötta kjörtímabil í embætti. Stjórnarandstæðingar og vesturveldin telja úrslitum kosninganna hafa verið hagrætt. Fjölmennustu mótmælin töldu um 200 þúsund manns í fyrra. Stjórnvöld skáru upp herör gegn mótmælendum, og voru yfir 35 þúsund handtekin og þúsundir lamdar af lögreglu.

Mótmælaalda hefur sprottið upp að nýju nú þegar rétt rúmt ár er frá kosningunum. Eftir handtökurnar í gær fóru tugir hvítklæddra kvenna á götur Minsk, og héldu á rauðum blómum, í þöglum mótmælum gegn stjórnvöldum.