Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrír starfsmenn á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa smitast

13.08.2021 - 08:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Þrír starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri hafa sýkst af kórónuveirunni í yfirstandandi bylgju. Samkvæmt framkvæmdastjóra lækninga hafa smitin ekki haft mikil áhrif á starfsemina og starfsmennirnir ekki smitað út frá sér.

Engin útbreiðsla frá smitunum

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga, segir að einn starfsmannanna þriggja sem greindust hafi verið í sumarfríi en hinir hafi verið í vinnu. Hann segir annan þeirra sem voru í vinnu nú lausan úr einangrun og enginn hafi smitast af honum. „Hinn er enn í einangrun og ekki verið nein útbreiðsla heldur þar. Það var gripið strax til viðeigandi ráðstafana og þeir sem þurftu að fara í sóttkví fóru í sóttkví. Þeir hafa ekki smitast við störf og eins og staðan er í dag hafa þeir ekki smitað neina aðra, hvorki aðra starfsmenn eða sjúklinga,“ segir Sigurður.
  

Smitin komu upp á geðdeild sjúkrahússins og á Kristnesi en Sigurður segir að unnt hafi verið að halda uppi nauðsynlegri þjónustu. Þó þurfti að láta einhverja starfsemi bíða meðan á sóttkví stóð en áhrifin hafi ekki verið mikil á heildarstarfsemina.

Talsvert er um smit á Norðurlandi eystra og eru nú rúmlega 70 manns í einangrun. Sigurður segir að nokkrum sjúklingum hafi verið sinnt á göngudeild en ekki enn hefur þótt ástæða til að leggja neinn þar inn.