Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þjónusta við barneignir grunnatriði en ekki lúxus

epa08408656 Midwife Alexandra weighs the 16-days-old Sarai, during a postpartum care at a Family in Munich, Bavaria, Germany, 07 May 2020. The midwives of the birth centre in Munich have adapted their postpartum care to the current circumstances due to the Coronavirus pandemic. As far as possible, more distance is kept from the mothers, and no conversations are held during the examinations. Regular hand washing or disinfection is part of the routine.  EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS
 Mynd: EPA
„Þjónusta við fjölskyldur á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu hefur ekki verið talin lúxus, heldur grunnheilbrigðisþjónusta,“ segir Unnur Berglind Friðriksdóttir fyrir hönd Ljósmæðrafélags Íslands. Þetta eru viðbrögð félagsins við ummælum Díönu Óskarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær.

„Það er verið að þrengja svolítið vel að fæðingarþjónustunni, en við erum samt að tryggja það að við höldum öruggri þjónustu áfram,“ sagði Díana í kvöldfréttum í gær. Sagði hún að þrengt væri að „lúxusnum“ en nauðsynleg þjónusta yrði áfram veitt.

Þessu er Ljósmæðrafélag Íslands ósammála og hefur það áhyggjur af þróun mála. „Það að færa þessa þjónustu inn á vaktherbergi eða setustofu ljósmæðra getur aldrei talist ásættanleg né örugg þjónusta“.

Fjölskyldur leiti frekar til Landspítala

„Hætt er við að fjölskyldur veigri sér við að sækja þjónustu sem veitt er við þessar aðstæður,“ segir í ályktun Ljósmæðrafélagsins. Unnur formaður félagsins telur þetta skjóta skökku við þá skýringu að verið sé að létta undir með Landspítalanum.

„Þegar er mikið álag á kvennadeild Landspítala nú þegar, þar sem þangað leita allar konur sem eru covid-smitaðar eða í sóttkví. Aðstæður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands gætu orðið til þess að enn fleiri leiti beint þangað, frekar en að sækja þjónustu á Suðurlandi,“ sagði Unnur í samtali við fréttastofu.

Vandinn er ekki rúm heldur mönnun

Unnur gerir einnig athugasemd við þau ummæli Díönu að eftir sé að manna þessi nýju legurými. „Af hverju er ekki farið í að manna legurýmin sem eru ónotuð vegna manneklu - frekar en að þrengja að barneignaþjónustu?“

„Við vonum auðvitað til að það verði hætt við þessar áætlanir,“ segir Unnur og ítrekar að vandi heilbrigðiskerfisins sé mönnun fremur en skortur á legurýmum.