Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Með merkilegri fundum síðari ára í fornleifafræðinni“

Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Gullhringur og höfuðfat eru meðal muna sem fundist hafa við uppgröft á rústum Þingeyraklausturs í vikunni. Prófessor í fornleifafræði segir fundinn vera með þeim merkilegri á síðari árum.

Rannsóknir hófust 2014

Rannsóknir á Þingeyraklaustri í Húnavatnssýslu hófust árið 2014 og miðuðu þá einkum að því að komast að hvar klaustrið stóð. Nú hafa fornleifafræðingar sannarlega komist á sporið. Það er Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands sem stýrir verkefninu. „Við stöndum hérna í rústum Þingeyrarklausturs, vil ég meina, en það var stofnað 1133 sirka eða það tók til starfa það ár og var rekið til siðaskipta, lokað 1551. Þannig að reksturinn stóð hérna í rúm 400 ár, meira en fjórar aldir,“ segir Steinunn.

Telja sig hafa fundið Jón Þorleifsson

Það var svo í vikunni sem fornleifafræðingar fundu veglega gröf þar sem talið er að Jón Þorleifsson, einn klausturhaldara, hafi hvílt.  „Þegar gröfin var opnuð, þá kom í ljós að þessi einstaklingur sem þarna var grafin bar hring úr gulli, þetta er svona innsiglishringur sem er með ákveðnu tákni og það leiddi okkur á sporið um hver þetta gat verið. Hann var líka með forláta húfu á höfði.“

Jón lést árið 1683, aðeins 26 ára gamall. „Faðir Jóns var einnig mjög þekktur, Þorleifur Kortson og þá fyrir galdrabrennurnar á Ströndum en hann bjó hér hjá syni sínum þegar hann lést 1683 og hefur sjálfsagt séð um þessa veglegu útför.“

„Ekki oft sem það finnst gripur úr gulli“

Banmein hans er óþekkt en Steinunn vonar að rannsóknir á beinum og höfuðkúpu geti leitt það í ljós. Hún segir fundinn vera einn þann merkasta á síðari tímum.  „Það er ekki oft sem það finnst gripur úr gulli eða hringar eins og þessi, og eins þetta höfuðfat er mjög merkilegt þannig að ég tel þetta vera með merkilegri fundum síðari ára í fornleifafræðinni.“ 

Hægt er að fylgjast með verkefninu á Instagram-síðu hópsins