Yfir 300 þúsund fyrir brúðarkökusneið Díönu og Karls

epa02451786 A picture dated 24 February 1981 shows HRH Charles Windsor, Prince of Wales, (L) and his then fiance Lady Diana Spencer on the day their engagement was announced in the gardens of Buckingham Palace, in London, Britain. Prince William is to
 Mynd: EPA

Yfir 300 þúsund fyrir brúðarkökusneið Díönu og Karls

12.08.2021 - 06:28

Höfundar

Konungssinninn Gerry Layton frá Leeds á Englandi reiddi fram jafnvirði nærri 325 þúsund króna á uppboði í gær til að eignast efsta lag sneiðar af brúðarköku þeirra Karls Bretaprins og Díönu prinsessu. Layton bauð hæst allra í sætindin, sem innihalda kremið sem sett var efst á kökuna, auk hins konunglega skjaldarmerkis sem er haganlega gert úr gylltu, rauðu, bláu og silfurlitu marsípani. 

Moya Smith úr þjónustustarfsliði drottningamóðurinnar fékk sneiðina á sínum tíma. Hún pakkaði henni í plast og merkti með dagsetningu brúðkaupsins, 29. júlí 1981. Áhuginn á sneiðinni kom uppboðshöldurum í opna skjöldu að sögn Guardian. Flest komu boðin frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Miðausturlöndum að sögn Chris Albury, sérfræðingi hjá uppboðshúsi Dominic Winter í Cirencester.

Layton ætlar að bæta sneiðinni í drjúgt safn sitt, sem gefið verður til góðgerðarmála að honum liðnum. Þá hefur honum dottið í hug að hafa sneiðina í verðlaun í hlutaveltu, þar sem ágóðinn félli í hlut góðgerðarsamtakanna Centrepoint. Díana var verndari samtakanna.

Þau Karl og Díana voru gefin saman í dómkirkju heilags Páls 29. júlí 1981. 23 brúðarkökur voru bakaðar af því tilefni. Þau slitu samvistum árið 1992 og skildu fjórum árum síðar. Díana lést í bílslysi árið 1997.