Skilaði loftslagsstjórnin mikla raunverulegum árangri?

Hvar erum við stödd í baráttunni við loftslagsbreytingarnar?
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á loftslagsmál en hverju hefur sú áhersla skilað? Lét stjórnin verkin tala eða talaði hún aðallega um þau? Hafa aðgerðir hennar þegar skilað samdrætti í losun? Fréttastofa fór yfir þau gögn sem fyrir liggja, ræddi við ráðherra sem og forsvarsmenn umhverfissamtaka og stofnana sem ekki eru á einu máli um loftslagsarfleifð stjórnarinnar.

Loftslagsstjórnin mikla

Engin ríkisstjórn hefur lagt meiri áherslu á loftslagsmál en sú sem nú situr, engin hefur rætt meira um þau. Engin stjórn hefur áður haldið minningarathöfn um jökul. Tónninn var sleginn strax í stjórnarsáttmálanum þar sem meðal annars var lögð áhersla á að stefna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Síðan hefur stjórnin ítrekað minnt á metnað sinn í loftslagsmálum. Nú, tugum funda, yfirlýsinga og einni fjármagnaðri aðgerðaáætlun síðar hyllir undir lok kjörtímabilsins og mörgum fýsir eflaust að vita hverju loftslagsáherslur stjórnarinnar skiluðu. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir ríkisstjórnina ekki hafa verið öfundsverða. „Þau fóru úr nákvæmlega engum aðgerðum í einhverjar aðgerðir en þegar við erum að byrja svona seint og vandinn er svona rosalega stór, þá þurfa aðgerðirnar að vera miklu beittari en ríkisstjórnin hefur lagt fyrir okkur.“ 

Segist hafa tekið við slöku búi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, viðurkennir að hafa ekki tekið við neitt sérstöku búi. Pólitískur doði hafi einkennt málaflokkinn um árabil. „Ég man þegar ég kom hingað inn í ráðuneyti, það sem blasti við manni var að það voru ekki til neinar áætlanir um hvernig ætti að draga úr losun eða ná kolefnishlutleysi, það vantaði meiri kraft og afl inn í stjórnkerfið til að takast á við loftslagsmál, hreinlega bara mannauð,“ Hann segir margt hafa breyst ekki einungis fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar, loftslagsmálin hafi einfaldlega færst hærra á dagskrá alþjóðastjórnmálanna.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra (V).

Gagnsæið af skornum skammti

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum leit dagsins ljós árið 2018 og síðastliðið sumar var kynnt uppfærð útgáfa. Alls samanstendur áætlunin nú af 48 aðgerðum og ríkisstjórnin segir framkvæmdir hafnar við 28 þeirra. Á kynningarfundum sínum um áætlunina hefur ríkisstjórnin verið full sjálfstrausts, talað um að með því að fylgja áætluninni nái Ísland að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og gott betur en það. Aðgerðirnar liggja fyrir og sömuleiðis áform um hverju þær skuli skila fyrir árið 2030, en það er erfitt að nálgast upplýsingar um  stöðu þeirra nú, hvort þær hafi þegar skilað árangri og þá hversu miklum.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV

Auður hjá Landvernd segir gagnsæið ekki til staðar. „Það vantar líka gagnsæi upp á forsendurnar, forsendurnar í aðgerðaáætluninni byggja svo mikið á því að það verði sjálfkrafa samdráttur, ótengt aðgerðunum. Það er erfitt að átta sig á því á hverju það byggir.“ 

Sjá einnig: Binda miklar vonir við „business as usual“

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands kvartar líka yfir því að margt sé óljóst. „Ég held það sé til dæmis með öllu óljóst hvað þessi orkuskipti munu færa hvað varðar minni losun frá vegasamgöngum og fiskveiðum. Eg sé ekki að það hafi orðið einhver meiriháttar umskipti varðandi samdrátt í losun hér eða að fyrirséð séu einhver umskipti hvað varðar samdrátt í losun.“

Mynd með færslu
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Mynd: Steingrímur Dúi Másson - RÚV
Auður Önnu Magnúsdóttir.

Tvö ár liðin og engin skýrsla komið fram

Guðmundur Ingi viðurkennir að það megi gera betur í að miðla upplýsingum um stöðu aðgerðanna. Stjórnin hafi gert lagabreytingar sem eigi að tryggja aukið gagnsæi. Frá árinu 2019 hefur nefnilega verið ákvæði í loftslagslögum um að Verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum skuli á hverju ári vinna skýrslu um hvernig gengur að ná markmiðum. Í skýrslunni á að fara yfir hvernig losun hefur þróast og hvort sú þróun sé í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda. Nú eru tvö ár liðin frá lagabreytingunni og enn hefur engin skýrsla komið fram. Verkefnastjórn stefndi að því að skila fyrstu skýrslunni nú í júní en það hefur dregist. Talsmaður ráðuneytisins segir skýrsluna langt komna en óljóst hvort hún verði birt fyrir kosningar. Það gæti því reynst kjósendum sem setja loftslagsmálin á oddinn þrautin þyngri að átta sig á því hvort stjórnin hafi dregið úr losun og þá hversu mikið. 

Loforð sem ekki var staðið við

Ein leið til þess að glöggva sig á stöðunni er að skoða hvaða loftslagsaðgerðir sem stjórnvöld lofuðu í stjórnarsáttmála sínum náðu fram að ganga. Af þrjátíu aðgerðum í loftslags- og umhverfismálum telja stjórnvöld sig hafa lokið við átján. Ekki tókst að ljúka aðgerð sem miðaði að því að koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Ekki var ráðist í að meta allar stærri áætlanir ríkisins út frá loftslagsáhrifum þeirra, í aðgerðaáætlun er raunar gengið lengra og lagt til að öll frumvörp verði metin með tilliti til loftslagsáhrifa en það er heldur ekki orðin raunin. Þá var ekki lokið við vegvísi að kolefnishlutlausu Íslandi árið 2040, ríkisstjórnin festi bara í lög að ná því, með því að binda jafnmikið og losað er. Árni Finnsson segir þennan vegvísi sárlega vanta. „Það vantar áfangamarkmiðin, það vantar að setja í lögin hvenær eigi að ná hverju, þetta var byrjun en það þarf að marka miklu skýrari leið. Þeir stjórnmálamenn sem verða árið 2040 eru ekki þeir sömu og í dag og það er eins og þeir sem eru í dag séu svolítið að lofa upp í ermina á sér án þess að hafa gert grein fyrir því hvernig eigi að ná þessu markmiði árið 2040.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Árni Finnsson.

Ráðherra lofar samdrætti á næstu árum

Tölur Umhverfisstofnunar sýna að á milli áranna 2018 og 2019 minnkaði samfélagslosun frá Íslandi, það er losun frá samgöngum, sorphaugum, landbúnaði og minni iðnaði um 2%. Það er mesti samdráttur sem hefur mælst frá árinu 2012. Losun frá fiskiskipum dróst saman, sama máli gegnir um vegasamgöngur og árangur náðist í að hemja losun vegna urðunar úrgangs. Samdráttinn í vegasamgöngum má að hluta til rekja til fækkunar ferðamanna sem óku um vegina í kjölfar falls WOW-air.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ferðamönnum fækkaði eftir fall WOW-air.

Markmið Íslands er að árið 2030 verði losunin að minnsta kosti þriðjungi minni en hún var árið 2005 og miðað við þessar tölur hefur losunin sem þarf að vinna á dregist saman um 8% miðað við það ár. Á milli áranna 2019 og 2020 náðist töluvert meiri samdráttur samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar. Það ár minnkaði losunin frá íslensku samfélagi um 6,5%. Losun frá kælimiðlum dróst saman, en hafði aukist verulega árið á undan. Þetta skrifast á sveiflur í innflutningi fyrri ára. Þá dró úr losun frá vegasamgöngum, kannski ekki að undra þegar ferðaþjónustan lá að mestu niðri. Umhverfisstofnun býst við því að losun vegna umferðar aukist á ný á þessu ári vegna aukins ferðamannastraums. 

Guðmundur Ingi segir tölur Umhverfisstofnunar besta mælikvarðann á þann árangur sem ríkisstjórnin hafi þegar náð. Þó tölur innan einstakra losunarflokka sveiflist milli ára, vegna þátta sem hafa ekki endilega neitt með aðgerðaáætlunina að gera, og fram komi greinileg COVID-áhrif árið 2020 „Umhverfisstofnun telur að árið 2019, sem er eðlilegra ár en 2020, hafi toppnum í losun frá vegasamgöngum verið náð, við vonum að það haldi það kemur kannski ekki strax í ljós en það er mikilvæg vísbending um að aðgerðir stjórnvalda séu að skila árangri þar. En í heild sinni er þetta svolítið eins og olíuskip, það tekur tíma að breyta stefnunni og láta það sigla í rétta átt þannig að ég myndi segja að árangur af mörgum þeirra aðgerða sem við erum að grípa til á árunum 2018-2021 muni skila sér í minni losun síðar.“

Benda á 277 fréttir á vefsíðu ráðuneytisins

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu um árangur af aðgerðum ríkisstjórnarinnar segir að upplýsingar um framgang aðgerða verði að finna í stöðuskýrslunni frá verkefnisstjórninni. Þangað til geti ráðuneytið bent á fréttir um einstaka aðgerðir og ýmislegt tengt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á vef sínum. Margt hafi áunnist á síðustu árum. Fréttirnar sem núverandi ríkisstjórn hefur birt um loftslagsmál á kjörtímabilinu eru 277 talsins, margfalt fleiri en þær sem forverar hennar birtu. Rúmlega þriðjungur fréttanna varðaði fundi, þing eða ráðstefnur sem ráðherrar sátu eða ávörpuðu. Um tuttugu vörðuðu skýrslur sem ýmist höfðu verið unnar af undirstofnunum ráðuneytisins eða alþjóðlegum stofnunum. Þá voru álíka margar fréttir um yfirlýsingar hvers konar og loks tugir tilkynninga sem höfðu lítið með samdrátt í losun að gera. 

Einhverjar fréttanna vörðuðu laga- og reglugerðarbreytingar, styrkveitingar, auknar fjárveitingar til loftslagsmála. Loks voru nokkrar sem vörðuðu aðgerðir; svo sem aðgerðaáætlun, söfnun birkifræja, stofnun samráðsvettvanga og áform um að rafvæða ráðherrabifreiðar, þessi leið reyndist ekki sú auðveldasta til að átta sig á loftslagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. 

Milljarðar í aðgerðir

Fjárveitingar eru það sem knýr aðgerðir áfram. Aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir samtals 46 milljarða framlagi til loftslagsmála fram til ársins 2024. Í fyrra var bætt við 550 milljóna króna framlagi vegna heimsfaraldursins og eftir að ríkisstjórnin skerpti á losunarmarkmiðum sínum síðastliðið haust var ákveðið að eyrnamerkja loftslagsmálunum milljarð á ári til viðbótar. Þetta er meira en nokkru sinni hefur verið varið til loftslagsmála. Til samanburðar má þó nefna að ríkisstjórnin hefur varið hærri fjárhæðum í efnahagslegar aðgerðir vegna COVID-faraldursins á einu og hálfu ári. 

Er árangurinn aðallega á sviði stjórnsýslu?

Það er ekki hægt að útiloka að árangur stjórnvalda á sviði loftslagsmála sé einkum á sviði stjórnsýslu, þar hafa aðgerðir að minnsta kosti verið áberandi og Guðmundur Ingi sagði að í upphafi ráðherratíðar sinnar hafi ríkt pólitískur doði og hvorki til áætlanir né mannskapur til að sinna loftslagsmálunum nógu vel. Hann nefnir sérstaklega nýja ráðherranefnd um loftslagsmál. „Hún skiptir máli því þessi málaflokkur er sífellt að verða stærri og við þurfum að ráða við að vinna alla þá vinnu sem þarf að vinna þvert á ráðuneyti og stofnanir.“ Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttastofu segir að  öll umgjörð um loftslagsmálin sé orðin skýrari, ráðherranefnd og ráðuneytisstjórar fundi reglulega um loftslagsmálin, auk þess sem starfsfólki umhverfis- og auðlindaráðuneytis og ýmissa stofnana þess hafi verið fjölgað til að takast á við aukin verkefni.

Auður hjá Landvernd fagnar því að svokölluðu Loftslagsráði hafi verið komið á fót en segir að það mætti vera öflugra. „Það er ekki að fyrirmynd nágrannalanda okkar og meira samráðsvettvangur en eftirlitsaðili sem tékkar á því að aðgerðir stjórnvalda skili raunverulegum árangri.“ Hún segir að stjórnsýslan þurfi að vera miklu samhæfðari, skýrsla sem Capacent gerði um mitt ár í fyrra sýni það skýrt. „Þó ný loftslagsskrifstofa í umhverfisráðuneytinu hafi verið skref fram á við þá þarf öll ríkisstjórnin og stjórnsýslan að vera miklu samhæfðari í þessu því þetta er risastórt samfélagsverkefni sem varðar alla geira.“ Árni Finnsson tekur undir þetta, segir breytingar á stjórnsýslunni hafa verið nauðsynlegar en það megi biðja um meira. 

Sjá einnig: Engin raunveruleg stjórnsýsla í loftslagsmálum

Svartolíubann og F-gös 

Ríkisstjórnin lögfesti markmið um kolefnishlutleysi. Auður hjá Landvernd hefði viljað að stjórnin gengi lengra og lögfesti líka markmið um samdrátt í losun. Meðal fleiri markverðra lagabreytinga má nefna bann við bruna svartolíu innan landhelgi Íslands, strangt til tekið er þetta reyndar ekki bann þó það hafi verið kynnt þannig. Skip mega nefnilega áfram brenna svartolíu ef þau nota viðurkenndan hreinsunarbúnað. Markmiðið er að koma í veg fyrir að sót setjist á ís og jökla og flýti fyrir bráðnun en óljóst er hvort aðgerðin stuðlar að samdrætti í losun. 

Kolefnisgjald var hækkað um 50% strax í upphafi kjörtímabils og hækkaði svo um 10% í tvígang. Þessa aðgerð var að finna í stjórnarsáttmála. Landvernd hefði viljað sjá meiri hækkun. Auður segir það skilvirkustu leiðina til að draga úr losun og vitnar í rannsóknir alþjóðastofnana á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. „Það þyrfti að vera tvöfalt eða þrefalt hærra til að skila árangri, við erum ekki að tala um neinar prósentutölur í hækkun,“ segir Auður framkvæmdastjóri Landverndar. 

Stjórnvöld skattlögðu F-gös sem hafa lítið verið til umræðu fyrr en á þessu kjörtímabili. 

F-gös eru öflugustu gróðurhúsalofttegundir sem um getur og eru notuð í kælikerfi, til dæmis á frystitogurum og í stórmörkuðum. Reglum um þau var líka breytt til að fasa þau fyrr út „Við náum árangri hraðar og fyrr, en hann dreifist á næstu tíu ár,“ segir Guðmundur. Auður segir það hvernig stjórnvöld hafa tekið á F-gösunum til fyrirmyndar. „Þetta gengur hægt en planið er gott, sett þak og dregið saman á ári hverju. Þetta ætti að gera í öllum geirum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Kælimiðlar.

Þá liðkuðu stjórnvöld fyrir starfsemi fyrirtækja sem vilja binda koltvísýring í jörðu, með löggjöf. Hér má því löglega breyta gasi í grjót eins og gert er í Carbfix verkefninu. 

Verið að undirbúa nýtt loftslagsmarkmið núna

Aðgerðaáætlun stjórnvalda gerir ráð fyrir því að árið 2030 losi Ísland tæplega þriðjungi minna en árið 2005, 29% minna. Með aðgerðaáætluninni telja stjórnvöld þó að það náist 35 - 46% samdráttur. Í haust skuldbundu Evrópusambandið og Noregur, til að minnka losun sína um 55% miðað við sitt viðmiðunarár 1990. Ísland hefur átt aðild að sameiginlegu markmiði þessara ríkja og skuldbatt sig því líka til að auka metnaðinn. Þessa sér þó ekki enn stað í skuldbindingum Íslands, ESA, eftirlitsstofnun EFTA, birti nýlega samþykktar losunarúthlutanir, lagalega bindandi,um það hversu mikið Ísland má losa af koltvísýringsígildum á ári fram til ársins 2030 og þar er miðað við gamla 29% markmiðið. Guðmundur Ingi segir að nú sé unnið að því á vegum Evrópusambandsins að ákveða hlutdeild Íslands í nýju markmiði. „Þangað til ríkin eru búin að ræða með hvaða móti þessi skipting verður miðað við 55% get ég ekki svarað því hvað kemur í hlut Íslands, en við höfum sagt að burt séð frá því hvað verður talið sanngjarnt fyrir Ísland þá munum við alltaf fara í 40%, við förum aldrei neðar en það og ég lít svo á miðað við þróunina í þessum málum að land eins og Ísland eigi að vera í 55% hið minnsta og ég sé fyrir mér að við þurfum að fara hærra en það. Þessi vinna er núna í gangi hjá Evrópusambandinu og Ísland og Noregur eru að hefja samtalið núna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Svona skiptist sú samfélagslega losun sem stjórnvöld á Íslandi bera ábyrgð á að minnka, um hve mikið er enn óljóst.

Framtíðin

Aðgerðaáætlunin bindur ekki hendur næstu ríkisstjórnar. Því er óljóst hvað gerist eftir kosningar. Guðmundur vonar að allir flokkar láti sig þessi mál varða, og því sé hinn pólitíski doði endanlega úr sögunni. 

Þessi grein er sú fyrsta af þremur þar sem reynt er að svara því hvort og þá hvaða árangri ríkisstjórnin náði í loftslagsmálum á kjörtímabilinu. 

Árétting: Í upphaflegu útgáfunni var haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni að allt hafi verið í lamasessi í upphafi ráðherratíðar hans. Hann notaði ekki orðið lamasess heldur talaði um að ríkt hafi pólitískur doði og hvorki hafi verið til áætlanir né mannskapur til að sinna loftslagsmálunum nógu vel.

12.08.2021 - 08:07