Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meðalsölutími íbúða aldrei verið styttri

12.08.2021 - 14:48
Myndir teknar með dróna.
 Mynd: RÚV
Framboð íbúða sem auglýstar eru til sölu heldur áfram að dragast saman, á höfuðborgarsvæðinu nemur samdrátturinn um 60% á einu ári. Á sama tíma er salan mikil og því seljast íbúðir nú hraðar að meðaltali en nokkru sinni áður. Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu í júní á þessu ári nam 37 dögum, samanborið við 51 dag á sama tíma í fyrra. Þegar litið er til landsbyggðarinnar er meðalsölutíminn almennt lengri og mældist 62 dagar í júní, samanborið við 89 daga í júní 2020.

Þetta kemur fram í nýjustu mánaðaskýrslu hagdeildar húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS. 

Hækkun á verði sérbýla töluvert meiri en fjölbýla

Hækkun á verði sérbýla á höfuðborgarsvæðinu hefur verið á uppleið frá því í október 2019 og á landsbyggðinni frá því í janúar 2020. Hlutfallslega seljast nú fleiri íbúðir á yfirverði; í júní seldust um 32,7% af eldri íbúðum yfir auglýstu verði samanborið við 14,3% áður.  Umtalsverður munur er á verðbreytingum á sérbýli og fjölbýli, á höfuðborgarsvæðinu jafnt sem landsbyggðinni; 

  • Á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu verð sérbýla um 24,8% í júní. Á sama tíma hækkaði verð fjölbýla um 15,9% ef miðað er við 12 mánaða breytingu. 
  • Á landsbyggðinni var hækkunin minni en verð fjölbýla hækkuðu um 8,6% og sérbýla um  20,3%

Vísbendingar um að útleiga á íbúðarhúsnæði fari minnkandi

Þegar litið er til leigumarkaðarins eru vísbendingar um að útleiga á íbúðarhúsnæði fari minnkandi. Kannanir benda til þess að 9% fleiri telji nú að lítið framboð sé af hentugu leiguhúsnæði, jafnframt hefur dregið mikið úr fjölda þinglýstra samninga á landinu öllu og allt að 40% í nágrenni höfuðborgarsvæðisins frá júní 2020. 

Húsnæðisöryggi og fjárhagsstaða landsmanna batna

Húsnæðisöryggi og fjárhagsstaða landsmanna fer batnandi. Hlutfall þeirra sem telja sig búa við húsnæðisöryggi mælist nú 91,9% en það var 90,2% í júní 2020. Ef litið er til ársins 2019 má sjá að stærsta breytingin hefur orðið meðal leigjenda en í júní 2019 töldu 51% sig búa við húsnæðisöryggi en hlutfallið í ár mældist 66%. 

Sömu sögu er að segja af fjárhagsstöðu heimila en ríflega helmingur þátttakenda telur sig geta lagt svolítið til hliðar og um 21% getur lagt talsvert til hliðar.