Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bóluefni fyrir hesta gæti gagnast mönnum gegn lúsmýi 

12.08.2021 - 17:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Vísindamenn við tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum eru að þróa bóluefni gegn sumarexemi í hestum. Það gæti í fyllingu tímans orðið að vörn gegn lúsmýi fyrir mannfólk.

Slíkt vopn gegn óværunni lúsmýi er eflaust eitthvað sem flestir tækju höndum tveim, enda finna margir fyrir miklum óþægindum eftir bitin. Þó er enn nokkur vegur í að slíkt verði mannfólkinu aðgengilegt. En verkefnið er hafið og það beinir sjónum sínum að sumarexemi í hestum.
 
Sumarexem í hestum er húðofnæmi sem orsakast af biti flugnategunda sem ekki eru landlægar á Íslandi. Íslenskir hestar sem fluttir eru til útlanda verða oft illa úti þegar á áfangastað er komið því þeir hafa aldrei komist í tæri við bitflugur sem þar eru, og sýna oft slæm ofnæmisviðbrögð við biti.
 
Tíðni sjúkdómsins er mjög há í útfluttum hestum, að því er segir á vef tilraunastöðvarinnar. Markmið verkefnisins er að þróa ónæmismeðferð, bæði fyrirbyggjandi þ.e. bólusetningu og læknandi meðhöndlun á hrossum sem komin eru með exem. 
 
Í framhaldinu væri hægt að þróa bóluefni fyrir mannfólk. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, ónæmisfræðingur við tilraunastöðina að Keldum, segir rannsóknina vel á veg komna og sumarið í ár sé annað sumarið þar sem fylgst sé með bólusettum hestum sem fluttir voru til Sviss. 
 
„Þetta gæti litið betur út, sumir bólusettu hestanna eru komnir með sumarexem,“ segir Sigurbjörg um gang mála þar ytra. „Staðan er enn óljós en við sjáum þetta betur næsta sumar.“

Hún segir erfitt að meta hvort hægt verði að nota sama upplegg í bóluefni fyrir mannfólk eða hvenær slíkt bóluefni yrði tilbúið. Ekkert bóluefni er til gegn ofnæmi í fólki.

Sigurbjörg minnir í þessu sambandi á að það gangi kraftaverki næst hve fljótt tókst að búa til bóluefni við COVID-19, slíkum hraða á þróun bóluefnis sé ógerningur að gera ráð fyrir hverju sinni.  
 
„En samt sem áður er rétt að benda á að það er fullt af gögnum sem fást úr rannsókninni sem við erum að vinna í tengslum við verkefnið, burt séð frá bóluefninu sjálfu. Þar eru upplýsingar sem geta nýst við allt mögulegt.“