Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leggja enn kapp á smitrakningu – Rauði krossinn hjálpar

Mynd með færslu
Smitrakningarteymi Almannavarna að störfum.  Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Smitrakningarteymi almannavarna vinnur að því hörðum höndum að rekja hvert einasta smit á sama hátt og gert hefur verið í fyrri bylgjum. Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannvarna. Til að bregðast við auknu álagi leituðu almannavarnir til Rauða krossins og sjálfboðaliðar úr viðbragðshópum þaðan aðstoða nú við smitrakningu.

„Við erum enn að leggja áherslu á að rekja smitin. Það sem hefur breyst núna er að fólk fær kannski ekki beinhart símtal um að fara í sóttkví, það fær skilaboð um það annað hvort í tölvupósti eða sms-i eða bæði, þar sem fólk er beðið um að kynna sér sóttkví og hvernig maður hagar sér í henni,“ segir Hjördís í samtali við fréttastofu. 

Frá upphafi hafi hjúkrunarfræðingar og lögreglufólk unnið saman að smitrakningu. „Margir hafa verið í öðrum vinnum, svo að þetta var svona leiðin til að geta bara bætt í og haft eins góða þjónustu og við viljum að sé í rakningarteyminu,“ segir hún og telur að viðbótarmönnunin frá Rauða krossinum dugi í bili. Hún segir fólk almennt taka símtölum og skilaboðum rakningarteymisins vel, og virðast vilja leggja sitt af mörkum til að vernda viðkvæma hópa og tryggja að skólastarf geti gengið sem best. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV