Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hiti á Sikiley mældist yfir evrópska hitametinu

11.08.2021 - 19:04
epa09409697 A tourist refreshes himself from a water tap next to the Colosseum during a hot day in Rome, Italy, 11 August 2021. The number of Italian cities on red alert due to the potential impact of the heat on people's health is set to rise from four on 10 August to 10 on 11 12 August, the government said.  EPA-EFE/ETTORE FERRARI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Hitastig á ítölsku eyjunni Sikiley mældist 48.8°C í dag samkvæmt yfirvöldum á eyjunni. Enn á eftir að staðreyna mælinguna en verði hún staðfest er ljóst að nýtt ítalskt og evrópskt hitamet hafi verið sett. Hitamælirinn sem nam þetta háa hitastig er staðsettur nærri Sýrakúsu, á austurströnd Sikileyjar.

Fyrra met er frá árinu 1999 þegar að hiti fór í 48,5°C á sömu slóðum. Fréttastofa AFP greinir frá því að að hitinn stafi af háþrýstisvæði sem hefur hlotið nafnið Lúsífer.

Hitastig var einnig hátt annarsstaðar í landinu og mældust 40°C í Toskana-héraði og í Róm.

Miklir gróðureldar hafa geisað á Ítalíu líkt og í fleiri ríkjum við Miðjarðarhaf en eldar hafa sérstaklega haft áhrif á Sikiley og í Kalabríu í suðurhluta landsins. 

Ríkisstjóri Sikileyjar, Nello Musumeci, hefur kallað eftir því að lýst verði yfir neyðarástandi í Madonie-fjallgarðinum nærri borginni Palermó. Þar hafa eldarnir brennt akra, heimili og önnur húsnæði ásamt því að búfénaður hefur orðið eldunum að bráð.

AFP hefur eftir landbúnaðarráðherra Ítalíu, Stefano Patuanelli, að bregðast þurfi við eldunum undir eins. Mikilvægast sé að tjón þeirra sem hafi misst allt verði bætt.
 

 

Andri Magnús Eysteinsson