Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimsfaraldur seinkar norðurljósarannsóknum

11.08.2021 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á uppbyggingu Norðurslóðarannsóknastöðvarinnar á Kárhóli. Kínverjar fjármagna starfsemina og hafa ekki getað komið til landsins á tímum faraldursins.

Norðurljósarannsóknir

Rannsóknastöðin, sem er í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu, var formlega tekin í notkun í október 2018 en uppbygging hefur verið mun hægari en gert var ráð fyrir í upphafi. Samningar um samstarf Íslendinga og Kínverja um samstarf á sviði heimskauta- og hafrannsókna voru fyrst undirritaðir árið 2012. Rannsóknastöðin á Kárhóli er samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana þar sem Rannís leiðir samstarf íslensku stofnananna en PRIC samstarf kínversku stofnananna.

Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Arctic Observatory eins og stöðin heitir, segir þar séu nú stundaðar norðurljósarannsóknir. „Það er þarna tækjabúnaður sem er að fylgjast með norðurljósavirkni og ýmissi annarri virkni í háloftunum og sú starfsemi er núna í gangi,“ segir Reinhard.

Umfangsmeiri starfsemi í framtíðinni

Í húsinu sem byggt var sérstaklega undir starfið var gert ráð fyrir umfangsmikilli rannsóknastarfsemi á sviði norðurslóðarannsókna með aðstöðu fyrir allt að 15 vísindamenn sem og aðstöðu fyrir almenning til að kynnast starfseminni. Sú aðstaða er ekki tilbúin til notkunar en það er rannsóknarstöðin sjálf hins vegar. Þar er tækjabúnaðurinn í gangi og notaður til rannsókna á norðurljósum. Gögnin eru send um ljósleiðara til Heimskautastofnunar Kína til greiningar en íslenskir vísindamenn hafa samkvæmt rammasamningum einnig aðgang að gögnunum.

Reinhard segir að heimsfaraldurinn hafi haft áhrif á þróun rannsóknastöðvarinnar. „Mannaða starfsemin hefur ekki komist í gang en við vorum í undirbúningi að koma henni af stað bæði með mönnun á staðnum og einnig er þetta alþjóðleg stöð í raun og veru sem gerir ráð fyrir að vísindamenn úr heiminum geti dvalið í lengri og skemmri tíma en því var frestað öllu saman vegna ákveðinna aðstæðna þannig að það hefur ekkert komist í gang,“ segir Reinhard.

Reinhard gerir ráð fyrir að áform Kínverjanna gangi eftir þegar ástandið í heiminum batni og kínversku vísindamennirnir geti farið að sinna verkefninu og þróa það áfram. Heimskautastofnun Kína hafi lagt mikla fjármuni í verkið og segir Reinhard ljóst að Kínverjarnir hafi ekki tjaldað til einnar nætur.