Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flestir smitaðir í hópi Janssen-þega

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Flestir þeirra sem greinst hafa með Covid-19 í yfirstandandi bylgju faraldursins og voru bólusettir höfðu fengið bóluefni frá Janssen.

Þetta kemur fram í gögnum sem fréttastofa kallað eftir frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Bóluefnin veita, eins og í ljós hefur komið, ófullkomna vörn gegn smiti en sóttvarnayfirvöld segja þó að þau dragi mikið úr smiti og sýnt þyki að þau veiti mjög góða vörn gegn alvarlegum sýkingum.

Tæplega 255 þúsund einstaklingar hafa verið bólusettir með fjórum tegundum bóluefnis. Rétt rúmlega helmingur þeirra fékk bóluefni Pfizer, um 20 prósent fengu Astra Zeneca eða Janssen og svo tæplega tíu prósent Moderna.

Af þeim sem hafa smitast af Covid í þessari nýjustu bylgju fengu flestir, eða 637, bóluefni Janssen. Er það 1,19 prósent af fullbólusettum. 420 hinna smituðu fengu Pfizer og 270 Astra Zeneca, en það er hlutfallslega hærra en þeirra sem fengu Pfizer. Hlutfallslega fæstir hinna smituðu eru í Moderna hópnum, en 59 sem fengu það bóluefni hafa greinst með covid.

Á það ber að líta að langflestir þeirra sem hafa smitast í þessari bylgju faraldursins eru í aldurshópunum 20 til 39 ára, sem er einmitt sá hópur sem var bólusettur að stórum hluta með Janssen.