„Ég held ég sé mildur, feminískur kommi“

Mynd: RÚV / Svandís Svavarsdóttir

„Ég held ég sé mildur, feminískur kommi“

11.08.2021 - 13:00

Höfundar

„Við erum allt of oft að skilja einhverja hópa eftir,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Hún vill að allir í samfélaginu fái að njóta jafnræðis og segir að þættir eins og Með okkar augum skapi rödd fyrir hópa sem þurfi að heyrast í, enda séu þeir stórskemmtilegir og fræðandi.

Með okkar augum snýr aftur á skjáinn í kvöld og fær til sín góða gesti, meðal annars Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Hún segir frá æskunni, pólitísku uppeldi, framtíðarsýn sinni og hvað henni þykir mikilvægast í lífinu.   

„Ef það að vera kommi er að vilja jöfnuð í samfélaginu, þá er ég kommi,“ segir Svandís í samtali við Steinunni Ásu Þorvaldsdóttur í Með okkar augum á RÚV. Hún er ekki hrædd við að standa á sínu og að hennar mati snýst pólitík um að tryggja að allir séu eins jafnir og hægt er og enginn sé skilinn eftir. „Ég held ég sé mildur, feminískur kommi en sem þorir að vera róttæk og þorir að búa til stemningu utan um það að breyta.“ 

Mikilvægast í lífinu finnst Svandísi annars vegar að gera gagn. „Að finnast ég vera að leggja eitthvað af mörkum,“ segir hún. Hins vegar eru það tengsl við fólk. „Við vini mína, við fjölskylduna. Passa upp á að horfa í augun á fólki og muna að við erum öll á sama báti.“  

Svandís segir að ekki hafi verið passað nógu vel upp á að samfélagið sé í raun og veru fyrir alla og að fatlað fólk lendi oft á jaðrinum. „Við erum allt of oft að skilja einhverja hópa eftir og sérstaklega þá hópa sem hafa ekki sterka rödd.“  

„Þessi þáttur er líka ein leið til að skapa rödd fyrir ykkar hóp, og það horfa allir á þættina ykkar. Þeir eru svo skemmtilegir!“  

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Með okkar augum

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir ræðir við Svandísi Svavarsdóttur í Með okkar augum sem er á dagskrá í kvöld kl. 19:45. Þættirnir hafa vakið athygli fyrir nýstárleg og frumleg efnistök. Fólk með þroskahömlun vinnur þættina með fagfólki í sjónvarpsgerð og miðlar þannig fjölbreytileika íslensks samfélags. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Þetta er sannkallaður fjölskyldukækur“

Sjónvarp

Þakklátur að geta verið samkynhneigður og ráðherra

Myndlist

Stoltastur af að hafa ekki gefist upp

Íþróttir

„Var aldrei viss um að ég væri nógu góður“