Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ruddi ólöglegan göngustíg gegnum nýrunnið hraunið

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Lögregla stöðvaði nýverið stjórnanda vinnuvélar sem var að ryðja göngustíg í gegnum nýrunnið hraun í Geldingadölum. Bannað er að raska nýrunnu hrauni og var þetta gert án samráðs við nokkra þá sem leita þarf til um slíkar framkvæmdir, að sögn sérfræðings hjá Umhverfisstofnun. Lögregla telur gröfumanninn hafa verið á vegum landeigenda.

Fréttablaðið greinir frá. Þar segir að búið sé að ryðja göngustíg í gegnum hraunið á gönguleið A inn á vinsælt útsýnissvæði við gosstöðvarnar, sem hefur verið umlukið hrauni um hríð og því lokað almenningi. René Biasone, sérfræðingiur hjá Umhverfisstofnun, segir málið í ferli. Verið sé að skoða svæðið og vinna skýrslu um stöðuna.

Hættulegt að ganga inn á lokaða svæðið

René segir hvorki lögreglu né Almannavarnir hafa vitað af framkvæmdunum og að björgunarsveitarmenn hafi áhyggjur af því að fólk gangi slóðann. Hann segir mjög hættulegt að hleypa fólki inn á lokað svæði sem þetta, enda geti það auðveldlega lokast þar inni ef hraun rennur aftur þar sem rutt hefur verið.

Telja landeigendur að baki stígagerðinni

Í Fréttablaðinu er haft eftir Gunnari Schram, yfirlögregluþjóni í lögreglunni á Suðurnesjum, að í liðinni viku hefði lögreglu borist tilkynning um gröfu að verki á hrauntungu við gönguleið A. Fór lögregla á vettvang og stöðvaði vinnuna, enda stangist það á við lög að raska nýrunnu hrauni. Gunnar telur að grafan hafi verið þarna á vegum landeigenda og væntir kæru frá Umhverfisstofnun vegna málsins.