Krefja ræningjann ekki um að skila regnbogafánanum

Mynd: Dagur Fannar Magnússon / Facebook

Krefja ræningjann ekki um að skila regnbogafánanum

10.08.2021 - 11:27

Höfundar

„Við vonum að viðkomandi sjái að sér og hugsi málin upp á nýtt,“ segir Dagur Fannar Magnússon sóknarprestur eftir að ónefnd manneskja, sem virðist vera í nöp við baráttu hinsegin fólks, lét greipar sópa um helgina og rændi regnbogafánum sem flaggað hafði verið við kirkjur og barnaskóla á Austurlandi.

Hinsegin dögum var fagnað um helgina og regnbogafánanar dregnir að húni víða um land. Ekki voru allir sáttir við sýnileika hans því víðs vegar fyrir austan voru þeir teknir niður og þeim stolið. Þar á meðal voru fánar við kirkjur á Reyðarfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði og fyrir utan barnaskólann á Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. „Það er frekar leiðinlegt að einhver vilji ekki sýna þessu málefni stuðning, og í raun og veru ekki bara sýna þessu stuðning heldur fara gegn málefninu,“ segir Dagur Fannar Magnússon sóknarprestur á Austurlandi. Hann segir að svo virðist sem verknaðurinn hafi verið framinn um hábjartan dag en þegar enginn sá til.

Mynd með færslu
 Mynd: Dagur Magnússon - Facebook
Fáninn fékk ekki að blakta við hún hjá Reyðarfjarðarkirkju í friði

Sökudólgurinn er fundinn en Dagur vill ekki upplýsa neitt um hann. „Við ákváðum bara að gera þetta þannig að hann mætti eiga fánana og við fáum bara nýja fána,“ segir Dagur. Það kveði einmitt á um það í Lúkasarguðspjalli að hvern þann sem taki eitthvað frá þér skuli ekki krefja um það aftur. „Í þessum anda vonum við að viðkomandi sjái að sér og fari að hugsa málin upp á nýtt. Taki svo bara þátt í baráttu hinsegin fólks.“

Rætt var við Dag Fannar Magnússon í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Það er enginn að gera heimildarmynd - sem er ótrúlegt“

Menningarefni

Stundum mæta engin ættmenni í samkynja brúðkaup