Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hafa fimm bíla fyrir minna veika covid-sjúklinga

Mynd með færslu
 Mynd: Slökkvilið höfuðborgarsvæð
Vernharð Guðnason, deildarstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, vonast til að álag við sjúkraflutninga covid-smitaðra verði ekki mikið meira. Flutningar smitaðra sem ekki þurfa umönnun, en þarf að koma í einangrun, hafa verið töluverðir í fjórðu bylgju faraldursins. Það stendur þó ekki til að breyta fyrirkomulagi covid-flutninga.

Hafa bætt við sig bílum og fjölgað á vaktir

„Í upphafi faraldursins fengum við bíla fyrir svokallaða sitjandi flutninga, fyrir þá sem ekki þurfa umönnun,“ segir Vernharð. Í þeim bílum er hægt að flytja fleiri en einn smitaðan í einu. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur haft fimm slíka bíla til afnota.

Stendur ekki til að breyta fyrirkomulagi

Vernharð segir að þótt fjórða bylgjan hafi slegið met í fjölda smitaðra á dag hafi ekki verið gerðar breytingar á skipulagi covid-flutninga: „Við höfum fjölgað starfsfólki á vöktum og bætt við okkur þessum fimm bílum.“

Slökkviliðið hefur samkvæmt Vernharði verið úrræðagott það sem af er faraldrinum og það muni bregðast við auknu álagi jafnóðum. Þar sé meðal annars til skoðunar að fjölga bílum og starfsfólki enn frekar.