Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stjórnvöld um allan heim verða að gefa í

09.08.2021 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Stjórnvöld allsstaðar um heim verða að bregðast við nýrri loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna og gefa í, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. „Að mínu mati er þetta bara enn ein sönnun fyrir því að það þarf að gera ennþá betur.“ Halldór Björnsson loftslagsfræðingur segir nokkuð ljóst að hlýnun jarðar sé farin að hafa mjög slæmar afleiðingar í för með sér. „Við erum farin að sjá virkilegt tjón sem þetta veldur.“

Verða að nýta tækifærin

Guðmundur segir að ná þurfi betri árangri hérlendis í orkuskiptum í sjávarútvegi og landbúnaði en hingað til. „Það er komið miklu betur í gang og farið að skila árangri þegar kemur að vegasamgöngum.“ Sömuleiðis skili aðgerðir í úrgangsmálum og f-gösum sem þegar hafi verið ráðist í árangri á næstu árum. Guðmundur segir að aðgerðirnar megi þó ekki koma meira niður á þeim sem hafa lítið milli handanna en þeim efnameiri.

Oft hefur verið rætt um að munur sé milli markmiða og efnda. „Það þarf að gera það með markvissari hætti mjög víða,“ segir Guðmundur Ingi um hvernig stjórnvöld fylgi loforðum sínum eftir. ЈVið erum samt sem áður búin að vera að sjá margt jákvætt gerast bæði í Evrópu og nú í Bandaríkjunum, Kína og víðar. Það sem við þurfum kannski í stórauknum mæli að horfa á eru þau tækifæri sem felast í því að umbylta orkukerfunum með þeim hætti að við búum til græna framtíð með grænum störfum,“ segir Guðmundur.

Farið að valda virkilegu tjóni

Rætt var við Guðmund Inga og Halldór Björnsson loftslagsfræðing í kvöldfréttum sjónvarps.

Halldór segir nokkuð ljóst að hlýnun jarðar sé farin að hafa mjög slæmar afleiðingar í för með sér. „Við erum farin að sjá virkilegt tjón sem þetta veldur.“ Hann segir að strax verði að grípa til aðgerða til að draga úr losun. Halldór segir að til þess að slíkt verði að veruleika verði stjórnvöld að lofa meiri samdrætti í losun en áður hefur verið gert og ráðast í aðgerðir til að tryggja að þau loforð gangi eftir.

Á Íslandi mætti draga mætti úr losun frá kælibúnaði, vegasamgöngum og fiskiskipum, segir Halldór. Þegar sé orðið mikið um orkuskipti í samgöngum. Hann segir að nú þegar það sé orðið ljóst að það verði að draga úr losun  þá felist í því ákveðin tækifæri. Til geti orðið nýr iðnaður sem hjálpi öðrum við að draga úr losun.

„Það er augljóst mál að það er alltaf hægt að gera betur. Stjórnvöld víða um heim hafa verið sein að taka á þessu en það er vaxandi þungi í þessu og í raun ekki annað í boði en að halda áfram.“