Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spennuþrungið ár frá forsetakosningum í Hvíta Rússlandi

epa08620790 A poster with a portrait of Belarusian opposition candidate for President is seen, as people attend a protest against the results of the presidential elections in Minsk, Belarus 23 August 2020. Opposition in Belarus alleges poll-rigging and police violence at protests following election results claiming that president Lukashenko had won a landslide victory in the 09 August elections.  EPA-EFE/TATYANA ZENKOVICH
 Mynd: Tatyana Zenkovich - EPA
Ár er liðið frá því að Alexander Lúkasjenka var endurkjörinn forseti Hvíta Rússlands. Nánast umsvifalaust hófust mikil mótmæli í landinu en helsti keppinautur forsetans Svetlana Tíkanovskaja flúði land og stofnaði andófshóp sem ætlað er að skipuleggja friðsamleg valdaumskipti í landinu.

Lúkasjenka hefur verið forseti Hvíta-Rússlands frá árinu 1994 en landið varð sjálfstætt ríki við fall Sovétríkjanna árið 1991. Vesturveldin hafa kallað hann síðasta einræðisherrann í Evrópu vegna þess hve mjög öll andstaða hefur verið brotin á bak aftur á valdatíma hans.

Þegar niðurstöður kosninganna lágu fyrir var fullyrt að brögð hafi verið í tafli en opinberar tölur sýna að sitjandi forseti fékk um áttatíu af hundraði atkvæða en Tíkanovskaja rétt rúm tíu.

Sjá: Reynir að fá íslensk stjórnvöld á sitt band

Hún flúði land og fékk hæli í Litáen. Tíkanovskaja segir í viðtali við AP-fréttastofuna í dag að helstu mistök stjórnarandstöðunnar hafi verið að vanmeta grimmd ríkisstjórnarinnar.

Strax daginn eftir kosningarnar flykktust þúsundir mótmælenda út á götur höfuðborgarinnar Minsk og mótmæli mögnuðust mjög dagana á eftir. Lögregla varð uppvís að mjög harkalegum aðgerðum gegn mótmælendum sem lýstu grimmilegu framferði og sýndu myndir af sárum sínum.

Mótmælendur hafa látist, flúið land eða verið fangelsaðir. Í vor neyddu hvítrússnesk yfirvöld írska farþegaþotu til lendingar í Minsk svo hafa mætti hendur í hári Roman Protasevich, blaðamanns sem stundað hefur mikið andóf gegn stjórn Lúkasjenka.

Hvítrússum er kennt um dularfullt andlát andófsmannsins Vitaly Shishov í síðustu viku og hlaupakonan Kristina Tsimanovskaya fékk hæli í Póllandi af ótta við refsingu, um svipað leiti.

Til stóð að flytja hana nauðuga til Hvíta-Rússlands eftir að gagnrýni hennar á forsvarsmenn ólympíuliðsins sem hún var hluti af.

Ríki á vesturlöndum hafa ekki enn viðurkennt niðurstöður kosninganna og Evrópusambandið og Bandaríkin hafa sett valdamikla embættismenn á svartan lista.

Lúkasjenka hefur helst reitt sig á fjárhagslegan og pólítískan stuðning Rússa undanfarið ár. Tíkanovskaja og hópur hennar hafa í heilt ár barist fyrir því að alþjóðlegur skilningur fáist á að þau hafi stuðning fólksins í landinu og séu réttkjörin til forystu.