Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sálgæslan - Einbeittur brotavilji

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend

Sálgæslan - Einbeittur brotavilji

09.08.2021 - 15:55

Höfundar

Platan Einbeittur brotavilji er ný fjórtán laga plata frá Sálgæslunni. En Sálgæslan er sérverkefni saxófónleikarans Sigurðar Flosasonar sem er jafnframt höfundur allra laga og texta plötunnar. Einbeittur brotavilji er þriðja breiðskífa Sálgæslunnar og á þessari plötu eru sjö stórsöngvarar sem sjá um söng.

Tónlist plötunnar teygir sig í ýmsar áttir og að sögn Sigurðar hvílir tónlistin einhversstaðar á mörkum jazz, blús og sálartónlistar. Söngvarar á plötunni eru sjö talsins, en það eru Helgi Björnsson, KK, Andrea Gylfadóttir, Stefán Hilmarsson, Friðrik Ómar, Jógvan Hansen og Rebekka Blöndal.

Segja má að platan sé óður til íslenska smáglæpamannsins en brennivínsberserkir, eltihrellar, siðleysingjar og smákrimmar eru aðalpersónur margra laganna. Þá kemur margbreytileiki mannlegrar kynhegðunar einnig við sögu.

Auk Sigurðar sem leikur á saxófón spilar Þórir Baldursson á Hammond-orgel, Einar Scheving á trommur og Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar. Aðstoðarhljóðfæraleikarar eru Ari Bragi Kárason á trompet, Samúel J. Samúelsson á básúnu, Matthías Stefánsson á fiðlu og Bryndís Björgvinsdóttir á selló. Hafþór „Tempó“ Karlsson annaðist hljóðritun, blöndun og hljómjöfnun. Sigríður Hulda Sigurðardóttir hannaði umslag og Dimma gefur út.

Plata vikunnar að þessu sinni er plata Sálgæslan - Einbeittur brotavilji, sem verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum Sigurðar á tilurð laganna eftir tíufréttir í kvöld og er aðgengileg í spilara.