Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dixie-eldurinn orðinn sá næst-stærsti í sögu Kaliforníu

epa09404937 Buildings and vehicles are left destroyed by the Dixie Fire in Greenville, California, USA, 07 August 2021. The Dixie Fire had grown to over 440,000 acres as of 07 August.  EPA-EFE/CHRISTIAN MONTERROSA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dixie-skógareldurinn í norðanverðri Kaliforníu heldur áfram að stækka og er orðinn næst-stærsti skógareldur í sögu Kaliforníuríkis. Rannsókn bendir til þess að hann kunni að hafa kviknað þegar tré féll á rafmagnslínu. Veðurskilyrði hafa verið heldur hagstæðari á hamfarasvæðunum í Norður-Kaliforníu um helgina en síðustu vikur, sem hefur hægt heldur á útbreiðslu þessa risaelds. Hann stækkar þó enn og hefur nú brennt um 1.875 ferkílómetra skógar- og gróðurlendis.

Þetta kemur fram í tilkynningu eldvarnaryfirvalda í Kaliforníu. Þar með er Dixie orðinn stærri en Mendocino-eldurinn sem sveið um það bil 1.860 ferkílómetra í júlí 2018. Einungis Ágúst-eldurinn 2020 er stærri, nær 4.200 ferkílómetrar skógar og gróðurlendis urðu honum að bráð.

Í tilkynningu yfirvalda segir að minnst 404 byggingar og mannvirki hafi eyðilagst í eldinum til þessa og að hátt í 14.000 til viðbótar séu í hættu. Dixie-eldurinn hefur ekki kostað nein mannslíf til þessa, en fimm íbúa hins sögufræga smáþorps Greenville er saknað. Þá hafa fimm manns farist í öðrum eldum í Kaliforníu síðustu daga, þar sem ellefu stórir skógareldar loga.

Orkufyrirtæki talinn líklegur sökudólgur og ekki í fyrsta sinn

Rannsókn á upptökum Dixie-eldsins er hafin og beinast sjónir rannsakenda ekki síst að rafmagni. Forsvarsmenn orkufyrirtækisins Pacific Gas & Electric hafa greint frá því að eldurinn gæti hafa kviknað þegar tré féll á eina af háspennulínum þess og sleit hana.

Fyrirtækið hefur unnið að því hörðum höndum síðustu misseri að færa rafmagnslínur sínar í jörðu en fjölmargir skógar- og gróðureldar hafa verið raktir til spennustöðva og rafmagnslína fyrirtækisins á undanförnum árum. Þar á meðal er Camp-eldurinn 2018, mannskæðasti skógareldur í sögu Kaliforníu. 85 létu lífið í þeim eldi og nær 19.000 byggingar brunnu til grunna.