„Þetta er réttarmorð, það er það sem það var“

Mynd: Kristín Amalía Atladóttir / Aðsend

„Þetta er réttarmorð, það er það sem það var“

08.08.2021 - 09:00

Höfundar

„Þeir felldu tár yfir að þurfa að dæma hann til dauða. Það segir sitt. Lífið var ekki óskaplega dýrt á þessum tíma og hvað þá líf svona fólks,“ segir Kristín Amalía Atladóttir fræðimaður sem hefur undanfarin ár legið yfir heimildum um mál Sunnefu Jónsdóttur og bróður hennar Jóns. Systkinunum var gefið að sök að hafa eignast barn saman og voru dæmd til dauða fyrir blóðskömm.

Sunnefa Jónsdóttir er nafn sem margir þekkja úr íslenskri sögu. Hún er ein þeirra fjölmörgu kvenna sem voru dæmdar til dauða fyrir blóðskömm, meira að segja í tvígang. Skuggaleg þrautasaga hennar hefur orðið ljóð- og leikskáldum yrkisefni um langa hríð en sögur af henni og örlög hennar eru þó mismundandi eftir sögumanni. Kristín Amalía Atladóttir, kotbóndi, fræðimaður og kvikmyndaframleiðandi, hefur undanfarin ár safnað áreiðanlegum heimildum um Sunnefu og aðrar konur sem dæmdar voru fyrir kynferðisbrot fyrr á öldum. Rúnar Snær Reynisson ræddi við Kristínu í Sögum af landi í maí er saga Sunnefu var endurflutt í hlaðvarpinu Ástarsögur.

Lét hugann reika til formæðranna

Kristín býr á uppgerðu eyðibýli þar sem hún hefur setið daga og nætur yfir heimildunum til að fá sem skýrasta mynd af lífi Sunnefu. „Þegar maður er svona einn úti í sveit í myrkrinu þá á maður stundum til að delera svolítið,“ segir hún sposk um grúskið. Kveikjan að heimildasöfnuninni var #metoo-byltingin sem reið yfir í annað sinn árið 2017. „Þá sat ég hér ein að velta vöngum.“

Kristín lét hugann í kjölfarið reika til formæðra sinna og þeirra þrauta. „Allir eiga formæður sem eiga einhverjar örlaga- og jafnvel ofbeldissögur.“ Hún fann sterkar tengingar við móðurömmu sína sem var látin þegar hún fæddist en mikil baráttukona fyrir réttindum kvenna og verkalýðsins.

Hefur meiri merkingu fyrir okkur en framliðnu konurnar

„Það væri svo dásamlegt ef þær fengju að upplifa þessar breytingar sem eru að verða,“ segir Kristín um formæður sínar. „Það varð eiginlega uppsprettan að því að ég fór að skoða þessi mál, kynferðisofbeldi aftur í tímann, í þeirri von að maður geti með táknrænum hætti veitt þeim viðurkenningu og uppreisn og með þeim hætti geti maður leyft þeim að njóta þess sem er vonandi hugsanlega að ávinnast.“

Hún hefur safnað saman frásögnum og heimildum um konur sem hefur verið drekkt og er komin með 63 konur í þann hóp. „Þetta er algjörlega táknrænt og hefur líklega meiri merkingu fyrir mig og aðra en þessar framliðnu konur. En þetta varð uppsrettan að því.“

„Raunveruleg saga hennar hefur ekki beint verið sögð“

Um Sunnefu hafa sem fyrr segir verið skrifuð leikrit og kvæði. Hún hefur lifað með fólki en þó kannski ekki raunveruleg saga hennar í heild því hún hefur verið sögð í þjóðsagnastíl. Drekkingahylurinn í Bessastaðaá er til að mynda nefndur Sunnefuhylur þó örlög hennar hafi ekki einu sinni verið drekking. „En fólk vill í dag halda í þetta nafn því það vill halda í þessa miklu sögu. Sagan um það hvernig henni var drekkt í þessum hyl er þjóðsaga. „Hún er dálítið stórfengleg og við höfum gaman að sterkum sögum svo það er eðlilegt að þetta viðhaldist. En raunveruleg saga hennar hefur ekki beint verið sögð.

Viðurkennir að litli bróðir eigi barnið

Kristín segir að saga Sunnefu sé á sinn hátt hliðarsaga við drekkingarsögurnar því hún hlaut dauðadóminn en ekki örlögin. Sunnefa var fædd á Borgarfirði eystra og Kristín segir að hún og yngri bróðir hennar Jón hafi verið óvenjufríð og vel gefin.

„Þau voru dökk yfirlitum með frekar óvenjulegt útlit svo það er ekki ólíklegt að faðir þeirra hafi verið franskur sjómaður,“ segir Kristín. Systkinin ólust upp í Geitavík með móður sinni og stjúpföður til ársins 1769 þegar Sunnefa var sextán ára og Jón fjórtán ára og Sunnefa ól barn. „Þetta eru tóm vandræði. Það var búið í nokkra áratugi á undan að leggja gríðarlega áherslu á að börn væru feðruð, það kom tilskipun eftir tilskipun frá kónginum í Danmörku um hvernig ætti að tryggja það.

Sunnefa kennir Erlendi Jónssyni á Bakka barnið og hann gengst við því til að byrja með en afneitar því fjórum dögum síðar og segist ekki vera faðirinn. Þá er Sunnefa tekin til yfirheyrslu hjá presti þar sem þjarmað er að henni. „Það er sagt að það hafi tekið einhverja daga og á endanum viðurkennir hún að barnið sé barn Jóns litla bróður. Þarna verður að bregðast við og gera eitthvað.“

Ógnar henni þar til hún játar

Sýslumaður kom og flutti systkinin að Skriðuklaustri þar sem réttað var yfir þeim. Þau voru að lokum dæmd til dauða, enda blóðskömm dauðasök, en slíka dóma þurfti þó að láta staðfesta á Alþingi. Það var hins vegar ekki farið með þau þangað því sýslumaður, Jens Wium, drukknaði við sérkennilegar aðstæður í Seyðisfirði eða strauk með eiginkonu sinni. Við af honum tók annar sýslumaður, sonur hans, Hans Wium. Hann fer ekki með systkinin til Alþingis sumarið eftir því Sunnefa er aftur ólétt.

Þá er hún sautján ára að verða átján. Hún eignast annað barn og er send frá sýslumannsbústaðnum að Egilsstöðum þar sem hún er í einangrun og á barnið ein. „Hún neitar að gefa föðurnafnið upp en sýslumaður kemur nokkrum mánuðum síðar og ógnar henni,“ segir Kristín. Sýslumaður spyr hvort það sé aftur Jón bróðir hennar sem eigi barnið og Sunnefa svarar að lokum á þá leið: „Úr því sem komið er, og þú segir það, þá verður svo að vera.“

Mynd með færslu
 Mynd: Erla María Árnadóttir - Af Sunnefusýningunni
Sunnefa var sögð sérlega fríð ásýndum, skörp og sterk kona

„Þarna hefst málið fyrir alvöru“

Jón bróðir Sunnefu, sem þá er staddur á Skriðuklaustri, trúir ekki að systir hans hafi kennt honum barnið. Þá er slegið í ný réttarhöld yfir systkinunum. „Þau réttarhöld eru gríðarlega sérkennileg, þau eru hvergi látin játa heldur eru þau látin játa að hafa játað,“ segir Kristín. Dómstóllinn var samansettur af átta körlum sem Kristín lýsir sem undirmálsmönnum, vandræðagemsum og fyllibyttum sem í raun voru ekki húsum hæfir.

„En það fellur annar dómur yfir þeim og þau eru tvídæmd til dauða á þessum tímapunkti,“ segir Kristín. Árið 1743 er farið með þau tvö á Alþingi til að láta staðfesta fyrri dóm og taka þau af lífi. „Einhverra hluta vegna fer sýslumaður ekki með, hann á að gera það og flytja málið fyrir yfirréttinum. En hann sendir skrifara sinn með peningapyngju sem eru böðulslaunin,“ segir Kristín. Systkinin fá loksins málsvara og verjanda og eru yfirheyrð. Sunnefa lýsir því þá að sýslumaður eigi seinna barnið en ekki bróðir hennar. Hún hafi verið þvinguð til að ljúga og henni hafi verið ógnað. En systkinin staðfesta fyrra brotið, að Jón sé faðir eldra barnsins. „Ég trúi því reyndar ekki og hef aðrar skýringar á því af hverju þau gera það,“ segir Kristín. „En þarna má segja að málið hefjist fyrir alvöru.“

„Spurning um hann eða þau“

Systkinin eru send í hvort í sína átt og við tekur erfitt og langt ferli. „Næsti kafli stendur yfir í fjórtán ár og allan þann tíma eru þau fangar,“ segir Kristín. Sunnefa fór til Reykjaviíkur og Jón í Skaftafellssýslu en þau koma aftur austur  árið 1751 til að koma fyrir enn einn dóminn þar sem verið er að rannsaka málin ofan í kjölinn. „Þá eru þau send til sitthvors sýslumanns fyrir austan því þá er búið að setja Hans Wium af tímabundið en svo enda þau aftur 1754 sem fangar hjá Hans, þessum sýslumanni sem er talinn vera faðir seinna barnsins og hefur markvisst unnið að því í ellefu ár að koma þeim í gröfina,“ segir Kristín. „Þetta er spurning um hann eða þau. Þetta er bara barátta.“

Veita á Sunnefu tækifæri til að hljóta náð

Það verður Sunnefu og Jóni til happs, samkvæmt Kristínu, að það eru valdaátök í sýslunni en meðan á þeim stendur eru systkinin fangar hjá Hans. Loks er ákveðið að veita Sunnefu rétt til að sverja fyrir Jón bróður sinn og hljóta náð. „Ef hún sver að Jón sé ekki faðir barnsins þá er hún laus allra mála. Það er ekkert blóðskammarmál. Hún þarf ekki að sanna að Hans Wium hafi ekki verið faðirinn,“ segir Kristín. Hans fer með Sunnefu og Jón að Eiðum þar sem þau eru fangar hans og fer ekki með þau á næsta þing eins og hann átti að gera. „Amtmaður á Íslandi skipar honum að koma með Sunnefu á þingið þar á eftir,“ segir Kristín.

Létust eftir nítján ár í haldi

En Sunnefa fékk aldrei tækifærið sem átti að veita henni til að verða frjáls kona. Hún deyr áður en að þinginu kemur, fangi í haldi hjá Hans Wium. „Ef hún hefði komist á þingið og svarið eið hefðu hún og Jón orðið frjálsar manneskjur eftir nítján ár. En þeirra líf var í raun búið. Hún var búin á sál og líkama.“ Jón virtist einnig hafa gefist upp eftir að vera fangi í 19 ár. „Hann hefur gengist Wium á hönd og játað á sig glæpinn. Hann er bara búinn,“ segir Kristín.

Felldu tár yfir að þurfa að dæma hann

Eftir andlát Sunnefu var farið með Jón á Alþingi þar sem honum er veitt tækifæri til að sverja barnið af sér. En hann gerir það ekki. „Hann vill bara deyja þegar þarna er komið sögu. Þeir dæma hann til dauða og menn grétu í réttinum,“ segir Kristín. „Þeir felldu tár yfir að þurfa að dæma hann til dauða. Það segir sitt. Lífið var ekki óskaplega dýrt á þessum tíma og hvað þá líf svona fólks. Ef amtmaður og yfirvaldið fella tár við þennan dóm á þessum tíma, það er mjög sérstakt.“

Hugrökk og sterk kona

Og enn fella margir tár yfir örlögum systkinanna.„Þetta var bara skelfilegt. Þetta er réttarmorð, það er það sem það var,“ segir Kristín. Eftir að hafa kynnt sér sögu Sunnefu segir hún hins vegar ljóst að það hafi verið borin virðing fyrir henni og Jóni bróður hennar. „Þau höfðu eitthvað þessi systkini,“ segir Kristín. „Í upphaflegu skjölunum er farið tiltölulega fallegum orðum um Sunnefu og hún vekur gríðarlega eftirtekt hvar sem hún kemur. Hún, og þau bæði, kölluðu fram aðdáun og virðingu og þau hafa verið sérstök,“ segir Kristín. En þegar fólk reynir að réttlæta Hans Wium og gjörðir hans er bent á hvað Sunnefa hafi verið lauslát og ástleitin, þó ekkert bendi til þess. „En hún hefur verið ótrúlega hugrökk og ótrúlega sterk. Þó svo að hún lendi í þessari valdabaráttu þá stóð hún sig í stykkinu. Hún stóð frammi fyrir Hans Wium verandi fangi hans í mörg ár, inni í hans húsum, og hún gaf sig ekki. Ómenntuð kona af fátæku bændafólki komin, líklega ólæs og skrifandi með engan félagslegan stuðning, ekki neitt. En hún stóð í lappirnar. Ekki með látum heldur seiglu,“ segir Kristín Amalía að lokum.

Hér er hægt að hlýða á viðtalið við Kristínu Amalíu Atladóttur í heild sinni og í hlaðvarpsveitum í þættinum Ástarsögur.

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Frumleg framsetning á einu athyglisverðasta dómsmálinu

Leiklist

Sunnefa reis upp gegn valdinu

Tónlist

Systkini dæmd til dauða fyrir sifjaspell