Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Markmiðið ennþá að halda veirunni í skefjum

08.08.2021 - 21:00
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í umræðuþættinum Sprengisandi í morgun að hjarðónæmi næðist með því að leyfa kórónuveirunni að ganga án þess að spítalinn riðaði til falls.  Þórólfur, sem er í sumarfríi,  sagði í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur, fréttamann, að stefna sóttvarnayfirvalda væri óbreytt; að verja viðkvæma og halda veirunni í skefjum. Hann segir þá að ummæli hans í Sprengisandi á Bylgjunni hafi verið misskilin.

Sjá einnig: „Þurfum að leyfa veirunni að ganga“

Stefna sóttvarnayfirvalda óbreytt

„Stefna sóttvarnayfirvalda er sú að við erum að endurskoða þann kafla sem við erum að fara inn í núna og ég hef skrifað minnisblað til ráðherra um áframhaldið, hvernig við ættum að haga okkur næstu mánuði. Nú er náttúrulega málið að ná þessari bylgju sem er í gangi niður og það getum við gert á marga vegu. Sérstaklega með því að herða tökin á landamærunum og minnka flæði veirunnar hérna inn og reyna að ná bylgjunni niður hér  innanlands þó það sé ekki kannski með þeim hörðustu aðgerðum sem við höfum gripið til, til þessa. Vonandi tekst okkur að ná henni niður án þess að til þess þurfi að koma, “ sagði Þórólfur. 

Orð hans á Bylgjunni hafi verið rangtúlkuð

Þórólfur segir að orð hans á Bylgjunni hafi ekki verið túlkuð rétt. Við þyrftum fyrst og fremst að herða á landamærum og lágmarka að smit kæmust inn í landið. Jafnframt þyrfi að hafa einhverjar takmarkanir innanlands til þess að veiran myndi ekki breiðast út. Hann segir tvær leiðir til að ná hjarðónæmi.

„Það er annað hvort að ná því með bóluefni eða að hún fær að ganga. Ég minni líka á það að það er búið að bólusetja mjög marga og um það bil helmingurinn sem er búið að bólusetja smitast ekki. Þannig að við þurfum ekki að ná frekari útbreiðslu í samfélaginu til þess að við náum betra ónæmi. Ég hef aldrei sagt að við eigum að láta veiruna geisa hér í samfélaginu. “ sagði Þórólfur. 

Þannig það er ekki lengur takmarkið að ná þessu hjarðónæmi? 

„Takmarkið er að ná hjarðónæmi á einn eða annan hátt með bólusetningu og við höfum reynt það. Helmingur þeirra sem er bólusettur er ónæmur þannig við náum hjarðónæmi hjá þeim. Til þess að ná hjarðónæmi í samfélagið þá þurfa fleiri að vera ónæmir gegn veirunni en það er þá ekki hægt að gera það öðruvísi en að bólusetja með þessum þriðja skammti, endurbólusetja þá sem eru viðkvæmastir. Það er hægt að ná því á einhvern máta en að segja að nú látum við bara veiruna ganga lausa um samfélagið, það hefur enginn sagt.  Við þurfum að vera með einhvers konar takmarkanir bæði  á landamærum og eins innanlands, “

Í viðtalinu á Bylgjunni talar þú um að til þess að ná hjarðónæmi þá ættum við láta veiruna ganga áfram en samt sem áður vernda Landspítala.

„Ég sagði að það væru tvær leiðir til að ná hjarðónæmi í samfélaginu og það væri með bólusetningu sem er ekki að takast, eða láta veiruna ganga. Og síðan náttúrulega getum við beitt annars konar aðgerðum líka; þessum endurbólusetningum og þessum takmörkunum sem við höfum til að takmarka útbreiðsluna, “ segir Þórólfur og bætir við að halda þurfi veirunni niðri í samfélaginu til þess að hún verði ekki íþyngjandi og alvarleg fyrir viðkvæma hópa eða heilbrigðiskerfið. 

Þannig það er ennþá planið? Við ætlum ekki að hleypa veirunni lausri? 

„Nei, nei. Það er ekkert planið og hafi einhver skilið orð mín þannig þá annað hvort hef ég bara ekki verið nógu skýr eða viðkomandi misskilið, “ segir Þórólfur. Það sé í höndum stjórnvalda að ákveða næstu skref en tillögur Þórólfs lúti að því að tamarka og lágmarka áhættuna á því að veiran komist inn í landið og að reyna að hafa hemil á útbreiðslunni innanlands eins og mögulegt er. 

Þórólfur fylgist grannt með þróun bylgjunnar og álagi á Landspítala. Hann segist hafa sent heilbrigðisráðherra minnisblað með ákveðnum tillögum um aðgerðir til lengri tíma og langtímasýn í faraldrinum. 

Aldrei verið stefnan að láta veiruna geisa í samfélaginu

Þórólfur segir ummæli sín um að veiran eigi að fá að geisa í samfélaginu ekki hafa verið túlkuð rétt, eða að hann hafi ekki verið nógu skýr. Það hafi aldrei verið stefnan að láta veiruna geisa. 

„Þetta er allavega ekki alveg rétt. Hvort sem að ég hef sagt þetta ekki nógu skýrt eða tilvitnunin eitthvað skrýtin. Auðvitað er þetta ekki þannig að veiran verði bara látin geisa hérna yfir allt, það hefur aldrei verið stefnan. Við þurfum að vernda viðkvæma hópa, vernda heilbrigðiskerfið og eina ráðið sem við höfum til þess er að takmarka innflæði á veirunni á landamærum og beita takmörkunum hér innanlands, “ segir Þórólfur að lokum. 

Katrín María Timonen
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV